Tæpur stuðningur við samninga hjá RSÍ

Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmanna í kjaraviðræðum og formaður framkvæmdastjórnar …
Kristján Þórður Snæbjarnarson, talsmaður iðnaðarmanna í kjaraviðræðum og formaður framkvæmdastjórnar Rafiðnaðarsambands Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Niðurstöður atkvæðagreiðslna um kjarasamninga hjá fimm félögum í samfloti iðnaðarmannafélaganna í viðræðum við Samtök atvinnulífsins liggja fyrir. Félögin fimm, GRAFÍA, MATVÍS, Rafiðnaðarsamband Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Félag hársnyrtinema, samþykkja samninginn. 

Athygli vekur að í Rafiðnaðarsambandi Íslands stóð mjög tæpt að samningurinn yrði samþykktur. 49,0% eru sagðir hafa kosið með samningnum en 47,6% gegn honum. Fylgið nær því ekki meirihluta. 3,3% tók ekki afstöðu með atkvæði sínu.

Hjá Rafiðnaðarsambandinu (RSÍ) kusu 1.713 af 3.571 á kjörskrá, þannig að kosningaþátttaka var 47,97%. RSÍ er eitt stærsta félagið í samflotinu.

Í öðrum félögum í samflotinu var atkvæðagreiðslan mun hliðhollari samningnum. 94,1% var fylgjandi samningnum hjá GRAFÍU, 78,6% hjá MATVÍS, 70,96% hjá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna og 90,2% hjá Félagi hársnyrtinema.

Niðurstöður atkvæðagreiðslna í öðrum félögum innan samflotsins verða birtar síðar, segir í tilkynningu frá Félagi íslenskra rafvirkja.

mbl.is