Borðtennis í blóðinu

Systkinin Gestur, Guðbjörg Vala og Eiríkur Logi Gunnarsbörn.
Systkinin Gestur, Guðbjörg Vala og Eiríkur Logi Gunnarsbörn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Systkinin Gestur, Eiríkur Logi og Guðbjörg Vala, börn Guðrúnar Gestsdóttur og Gunnars Skúlasonar, urðu samtals fimmfaldir Íslandsmeistarar í borðtennis á dögunum. Skúli og Pétur, eldri bræður þeirra, hafa einnig fagnað Íslandsmeistaratitlum í greininni, móðirin líka, en hún gat sér gott orð í körfuboltanum og faðirinn í fótboltanum á árum áður.

Íþróttaáhuginn leynir sér ekki á heimilinu í Vesturbænum og vel fer um borðtennisborðið, þar sem systkinin æfa sig reglulega fyrir utan hefðbundnar æfingar hjá KR. Þau hafa verið í ýmsum íþróttum, en nú á borðtennis nær allan hug þeirra. „Þetta er svo gaman,“ segja þau nánast í kór, þegar spurt er um valið.

Eiríkur er á 14. ári, en hann byrjaði að æfa borðtennis 10 ára. „Mér fannst mjög gaman að spila hérna heima en bræður mínir voru að æfa svo ég ákvað að fylgja þeim eftir.“

Gestur, sem er nær 18 ára, segist reyndar ekki hafa byrjað að æfa borðtennis fyrr en hann var 13 ára. „Ég hafði ekki áhuga á íþróttinni og gaf henni ekki tækifæri, en þegar ég byrjaði féll ég fyrir henni og hef verið í borðtennis síðan.“

„Ég byrjaði eiginlega á síðasta ári bara vegna þess að fjölskylda mín var í borðtennis,“ segir Guðbjörg, sem er átta ára og sennilega yngsta stúlkan sem kemst í 1. flokk kvenna, að því er fram kemur á vef Borðtennissambands Íslands. „Þetta er frétt fyrir mig, en ég hafði alltaf mikinn áhuga á borðtennis og einn daginn langaði mig bara að byrja að æfa.“

Eiríkur áréttar að borðtennis sé mjög gefandi íþrótt. „Félagsskapurinn er góður, það er alltaf gaman á æfingum, þjálfararnir eru skemmtilegir og síðast en ekki síst er mjög gaman að spila borðtennis,“ segir hann. „Ég er eiginlega alveg sammála honum,“ segir Guðbjörg. Gestur tekur í sama streng. „Það jafnast fátt á við það að hitta góða bolta á borðið, það verður aldrei leiðinlegt. Það verður líka einfaldara eftir því sem maður verður betri og mín upplifun er sú að það verður alltaf skemmtilegra að æfa eftir því sem getan eykst.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert