Hafi enn tíma til að sjá að sér

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. mbl.is/Eggert

Efling stendur fast á því að rifta kjarasamningi við hótelstjórann Árna Val Sólonsson vegna þess sem stéttarfélagið segir að séu ólöglegar hópuppsagnir á hótelunum Capital-Inn, Park Hotel og City Center Hotel sem Árni rekur.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að afstaða Eflingar hafi ekkert breyst, heldur þvert á móti. 

„Ef hann hættir ekki við þetta og sér ekki að sér sjáum við okkur ekkert annað fært,“ segir Sólveig við mbl.is.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði við mbl.is í morgun að hann hafni málatilbúnaði Eflingar. Sólveig segist ekki hafa búist við öðrum viðbrögðum.

„Við eigum fund á þriðjudaginn með SA þannig að það er enn tími fyrir Halldór, samtökin og Árna til að sjá að sér. Þeir hafa tíma til að átta sig á því að ég get ekki skrifað undir samning í góðri trú, farið og kynnt hann fyrir mínum félagsmönnum og hvatt þau til að skrifa undir, þrátt fyrir að þarna hafi verið hóflegar launahækkanir fyrsta árið, og þetta sé það sem bíði fólkst á lægstu launum,“ segir Sólveig.

„Það er augljóst að þá er ekki verið að semja í góðri trú. Þá er þetta blessaða vinnumarkaðsmódel meingallað.“

Sólveig segir að hægt sé að segja upp kjarasamningi við atvinnurekandann sem af ásetningi ætli sér ekki að standa við kjarasamninginn. 

„Það er enn tími fyrir þá til að átta sig á því hvað er rétt og hvað er rangt,“ segir Sólveig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert