Borgirnar verði endurhannaðar

Borgarstjórar höfuðborga Norðurlandanna, þau Anna König Jerlmyr, Raymond Johansen,Frank Jensen, …
Borgarstjórar höfuðborga Norðurlandanna, þau Anna König Jerlmyr, Raymond Johansen,Frank Jensen, Anni Sinnemäki og Dagur B. Eggertsson á ráðstefnunni Framtíð borganna, sem stendur yfir í Ósló. mbl.is/Baldur

Borgarstjórar höfuðborga á Norðurlöndum boðuðu róttækar aðgerðir í loftslagsmálum í Ósló í gær. Þar fer fram alþjóðleg ráðstefna um sjálfbærni borga en Ósló er umhverfishöfuðborg Evrópu í ár.

Fjölmenn sveit frá Reykjavík sækir ráðstefnuna, m.a. fulltrúar úr samgöngu- og skipulagsráði og umhverfis- og heilbrigðisráði. Hafa þeir fundað með fulltrúum Óslóar.

Raymond Johansen, borgarstjóri Óslóar, benti á að helmingur mannkyns byggi nú í borgum. Sameinuðu þjóðirnar áætluðu að árið 2050 myndu 2,5 milljarðar manna til viðbótar hafa flutt í borgir. Því væri til mikils að vinna í loftslagsmálum að gera borgarsamfélög umhverfisvænni. Rafbílar hefðu verið 70% seldra nýrra bíla í Noregi í apríl. Fjárfestar sem hafi veðjað á lágt endursöluverð notaðra rafbíla hafi tapað fé. Borgaryfirvöld í Ósló stefni að því að vera eingöngu með rafknúna strætóa fyrir 2020. Sú umbreyting að færa bílaumferð úr miðborg Óslóar en skapa um leið rými fyrir gangandi og hjólandi væri ekki sársaukalaus fyrir sum fyrirtækin. Þá væru vegtollar til að draga úr umferð mjög umdeildir í Noregi. Ekki síst meðal fólks utan borgarinnar.

Minnkað um 58%

Anna König Jerlmyr, borgarstjóri Stokkhólms, sagði borgaryfirvöldum hafa tekist að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 58% frá árinu 1990. Það væri markmið þeirra að árið 2030 mundi borgarstjórnin ekki lengur nota jarðefnaeldsneyti og svo öll borgin árið 2040.

Frank Jensen, borgarstjóri Kaupmannahafnar, sagði Kaupmannahöfn nú vera eina lífvænlegustu borg heimsins. Margt hefði því breyst frá níunda áratug síðustu aldar þegar borgin hefði verið í niðurníðslu, mengun verið vandamál og efnahagslífið í lægð. Borgin hefði verið endurhönnuð með þarfir fólks en ekki bíla í huga, sem birtist í fjölskylduvænni borg. Breyttar áherslur í samgöngumálum hefðu skilað því að 62% borgarbúa notuðu daglega hjól til að komast í skóla og vinnu. Það væri markmiðið að árið 2025 yrði borgin orðin kolefnishlutlaus.

Umbreyting Reykjavíkur

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sagði baráttuna við loftslagsvandann ekki snúast fyrst og fremst um leiðir til orkuframleiðslu, heldur væru skipulagsmálin stærsta viðfangsefnið í borgunum. Dagur rakti árangur borgarbúa við að innleiða hitaveitu og hvernig raforkan er framleidd á endurnýjanlegan hátt á Íslandi. Verk væri að vinna í samgöngum og sorpmálum. Vegna ákvarðana í skipulagsmálum fyrir nokkrum áratugum væri borgin mjög miðuð við þarfir bíla. Komið væri að því að taka nauðsynlegar en mögulega óvinsælar ákvarðanir í skipulagsmálum Reykjavíkur til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Framundan væru ár umbreytinga með vaxandi róttækni í loftlagsmálum.

Anni Sinnemäki, aðstoðarborgarstjóri sem fer með umhverfismál í Helsinki, sagði borgarbúa nú fara 80% sinna ferða gangandi eða hjólandi. Áformað væri að loka hvoru kolaorkuverinu um sig árin 2024 og 2029 og innleiða umhverfisvænni orkugjafa.

Jens Ulltveit-Moe, stofnandi og forstjóri Umoe, ræddi um fjárfestingar sínar í umhverfisvænni orku. Hann vitnaði í samtal við fyrrverandi umhverfisráðherra Noregs, sem hann nafngreindi ekki, sem teldi að mannkynið væri að tapa baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Margir keyra frá Leifsstöð

Að ræðunum loknum bárust spurningar úr sal. Meðal annars var Dagur spurður hvernig bregðast ætti við uppgangi ferðaþjónustu á Íslandi m.t.t. loftslagsmála. Hann sagði um 55% farþega í Leifsstöð fara í bílaleigubíla í stað þess að nota aðra samgöngumáta. Þetta þyrfti að skoða. Flugið yrði sá samgöngumáti þar sem síðast yrði hætt að nota olíu. Flugið yrði áfram mikilvægur þáttur í lífinu, ekki síst á eyjum í Norður-Atlantshafi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »