Saltkóngurinn í Svíþjóð

Hinn hálfíslenski Sven Ásgeir Hanson er enn að vinna þótt …
Hinn hálfíslenski Sven Ásgeir Hanson er enn að vinna þótt hann sé að nálgast áttrætt. Hann er stærstur í salti í Svíþjóð og er enn að leita að nýjum viðskiptatækifærum um víða veröld. mbl.is/Ásdís

Einu sinni til tvisvar á ári heimsækir Sven Ásgeir hjartalækninn sinn á Íslandi, frænda sinn Ásgeir Jónsson. Bera þeir báðir nafn afa síns, Ásgeirs Péturssonar, og eru synir systkina. 

Á Hótel Borg eins og afi

Sven er fæddur 1941 og er alinn upp í Gautaborg, sonur Per-Olof Hansons og Margrétar Ásgeirsdóttur, ávallt kölluð Gréta. Hún er dóttir Ásgeirs Péturssonar stórútgerðarmanns og Guðrúnar Halldórsdóttur húsfreyju.

„Mamma mín Gréta hitti pabba í Hamborg í kringum 1930 þegar þau voru bæði tvítug. Þau kynntust á tungumálanámskeiði þar en móðir mín hafði dvalið langdvölum í Kaupmannahöfn vegna þess að hún fékk berkla og var þar í meðferð. Amma mín og mamma bjuggu því um tíma þar og þaðan fór mamma til Hamborgar en afi minn Ásgeir stundaði þar viðskipti. Þannig æxlaðist það að mamma kynntist pabba, sem er Svíi, og þau fluttu til Svíþjóðar og giftu sig 1932,“ segir Sven.

Afi hans í móðurætt, Ásgeir Pétursson, var mikill viðskiptajöfur á Íslandi og þótti mjög vandaður maður. Hann var búfræðingur, útgerðarmaður og kaupmaður á Akureyri og Siglufirði, og bjó um tíma í Kaupmannahöfn en að lokum í Reykjavík.

„Hann varð efnaður maður en var það svo sannarlega ekki frá upphafi. Hann lenti hjá góðum fósturforeldrum og fékk að stunda nám og fór til Kaupmannahafnar í viðskiptanám. Þegar hann kom heim fór hann í fiskibransann og seldi mikið fisk til Danmerkur. Ástæðan fyrir því að ég dvel alltaf á Hótel Borg þegar ég er hér á landi er sú að sagan segir að afi hafi alltaf gist á Hótel Borg þegar hann var í Reykjavík að stunda viðskipti sín,“ segir Sven. „Ég hitti hann reyndar aldrei því hann dó í desember 1942 þegar ég var aðeins eins árs.“

Fyrsta flugið frá Svíþjóð

„Ég fór í fyrsta skipti til Íslands í júní árið 1946 í gamalli uppgerðri herflugvél og ég man bara að vélin lét illa á leiðinni. Ég held reyndar að þetta hafi verið fyrsta flugið milli Svíþjóðar og Íslands, því það var getið um það í sænskum dagblöðum. Því miður hræddi flugferðin mömmu svo mikið að hún fór aldrei aftur til Íslands, sem var sorglegt,“ segir Sven.

 „Í gamla daga talaði ég dálitla íslensku því það voru margir íslenskir nemar í Gautaborg og þeir komu gjarnan til okkar í sunnudagsmat. Þannig náði ég að æfa íslenskuna, en eftir það missti ég hana niður þar sem við fórum aldrei heim til Íslands. Mamma talaði mjög lítið við mig íslensku en söng þó íslensk lög þegar hún sat við píanóið og spilaði,“ segir Sven.  

Salt í 190 ár

Eins og faðir hans á undan honum, tók Sven snemma við fjölskyldufyrirtækinu. „Það var engin pressa á að taka við fyrirtækinu og hugleiddi ég að verða bóndi. En ég held að innst inni hafi ég viljað það. Ég fór ungur með pabba í vinnuna og ég tel að hann hafi verið snjall að sýna mér allt frá unga aldri, án þess að ýta á mig,“ segir Sven sem unnið hefur við fjölskyldufyrirtækið allar götur síðan.

Saltfyrirtækið Salinity, áður Hanson & Möhring, framleiðir 750 þúsund til milljón tonn af salti árlega. „Á næsta ári erum við búin að vinna í salti í 190 ár samfleytt. Þetta hófst allt árið 1830 þegar síldin var í Svíþjóð. Afi minn vann þá í fyrirtækinu fyrir menn sem áttu enga afkomendur. Afi, ásamt tveimur öðrum, tók svo við fyrirtækinu árið 1905. Síðan árið 1970 hefur það verið að fullu í okkar fjölskyldu,“ segir Sven og stiklar á stóru í langri og merkri sögu saltfyrirtækisins.  

„Við sjáum hvað gerist, kannski tekur næsta kynslóð við fyrirtækinu,“ segir hann en þess má geta að í dag veltir fyrirtækið rúmlega tíu milljörðum íslenskra króna árlega.

Sven er enn að vinna og ferðast um víða veröld í sínu starfi þrátt fyrir að vera orðinn 77 ára. „Dóttir mín og tengdasonur sjá um daglegan rekstur og ég er meira í að leita að nýjum viðskiptatækifærum. Pabbi sagði við mig þegar ég var mjög ungur: þú mátt gera hvað sem þú vilt en ef þér mistekst verður þú sjálfur að þrífa upp eftir þig,“ segir hann og er greinilegt að hann lifir enn eftir þessari reglu.  

Sven Ásgeir er mikill siglingamaður og hafnaði í 6. sæti …
Sven Ásgeir er mikill siglingamaður og hafnaði í 6. sæti á Ólympíuleikunum árið 1986.

Í sjötta sæti í siglingum

Sven á fjöldann allan af veðhlaupahestum víða um heim. „Það byrjaði þannig að árið 1968 var ég í Akapúlkó að keppa á Ólympíuleikunum í siglingum. Siglingar voru mitt helsta áhugamál á þeim tíma. Í tvö ár í röð þurfti ég að taka mér þriggja mánaða frí til að æfa og ég áttaði mig á því að ég gæti ekki haldið því áfram. Þannig að ég ákvað að venda kvæði mínu í kross og finna mér eitthvert allt annað áhugamál. Þannig að ég hætti að sigla, því miður, í 21 ár. Á þessum tíma átti ég bóndabæ í Svíþjóð og þáverandi kona mín var hestakona. Ég byrjaði líka í hestamennsku en eftir nokkur ár gerði ég mér grein fyrir því að ég gæti ekki bara keppt um helgar án þess að æfa mig í miðri viku. Þannig að ég byrjaði að kaupa veðhlaupahesta,“ segir hann.

Sven Ásgeir og kona hans Carina eru mikið hestafólk og …
Sven Ásgeir og kona hans Carina eru mikið hestafólk og hafa keypt og selt veðhlaupahesta um langt skeið.

 Segðu mér aðeins frá Ólympíuleikunum.

„Það var mikið ævintýri. Alveg stórkostlegt; mikil reynsla. Ég var þá 27 ára og þetta var klárlega ævintýri lífs manns. Við vorum þrír þarna á seglbátnum og lentum í sjötta sæti. En ég hafði ekki tíma til að halda þessu hobbíi áfram. Ég hætti svo að sigla eins og fyrr segir en tók svo aftur upp siglingar og varð Svíþjóðarmeistari árið 1995. Það sama ár lenti ég í 4. sæti í heimsmeistarakeppninni í Fremantle í Ástralíu. Ég var ágætis siglingamaður en þetta var meira til gamans,“ segir hann.

„Í dag á ég stóran seglbát sem ég sigli í Króatíu en bara til gamans í fríum. Ég fer þangað í 5-6 vikur á hverju sumri.“

Þú virðist hafa mikið keppnisskap og finna þig vel í samkeppni bæði í leik og starfi?

„Já, mér finnst gaman að keppa og líklega er ég svolítið eirðarlaus og þess vegna er ég ekki hættur að vinna. Tengdasonur minn segir að ég sé búinn að minnka við mig niður í fulla vinnu,“ segir hann og brosir.

Stoltur af upprunanum

Sven er sem fyrr segir farinn að venja komur sínar til Íslands og segist finna mikla tengingu við land og þjóð. „Það er sorglegt að segja frá því en frá 1946 og til 1974 kom ég aldrei til Íslands. Svo þegar ég kom það árið áttaði ég mig á því hvað mér líkaði það vel og byrjaði að þreifa fyrir mér varðandi viðskipti. Svo bjó systir mín hér í lok níunda áratugarins og þá kom ég oftar. Svo núna kem ég árlega og fer í hjartaskoðun hjá frænda mínum. Við hittumst einu sinni sem börn og svo einu sinni fyrir langa löngu í Gautaborg. En þegar við fórum að hittast svona reglulega áttaði ég mig á því að við höfum mjög svipaðan smekk, til dæmis hvað varðar myndlist og tónlist. Við náum vel saman þrátt fyrir mjög ólíkan bakgrunn,“ segir hann.

Segir þú fólki að þú sért hálfíslenskur?

„Já, ég geri það með stolti.“

Ítarlegt viðtal við Sven er í Sunnudagsblaði Morgublaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »