„Botnlaus gróðahyggja“ á leigumarkaði

Margrét Kristín Blöndal, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, hugsi yfir …
Margrét Kristín Blöndal, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, hugsi yfir stöðunni í morgun. Hún vill að Íslendingar skipti um viðhorf til leigumarkaðarins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ótækt ástand sem ekki er hægt að búa við“. Svona lýsti Margrét Kristín Blöndal, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi, ástandinu á leigumarkaði á Íslandi í framsögu sinni á leigudegi Íbúðalánasjóðs og Félagsmálaráðuneytisins sem haldin var á Hilton Reykjavik Nordica í morgun. 

Eins og nafnið gefur til kynna var leigumarkaðurinn á Íslandi þar til umræðu, en fyrirhugaðar eru breytingar á húsaleigulögum. Tilgangur dagsins í dag var að fá hagaðila og aðra sem málið varðar að borðinu til að færa fram sjónarmið áður en vinna við breytingarnar fer á fullt skrið. 

Snýst um mannréttindi

Margréti Kristínu var tíðrætt um hugarfarið sem ríkir á íslenskum leigumarkaði og lagði til róttækar breytingar. Hún sagði að hér á landi hefði um allt of langt skeið ríkt „botnlaus gróðahyggja“ og því hugarfari þyrfti að breyta, enda væri húsnæði ekki vara eins og hver önnur. „Húsnæði fólks og fjölskyldna er ekki markaðsvara,“ sagði Margrét í samtali við blaðamann mbl.is eftir ræður framsögumanna. Innt eftir frekari svörum um þetta sjónarmið sagði Margrét: „Það er bundið í lög að við þurfum að búa við öryggi. Við þurfum að hafa öruggt húsnæði yfir höfðinu einfaldlega til þess að mannréttindi séu höfð í hávegum.“

Í ræðu sinni sagði Margrét að það væri krafa Samtaka leigjenda að þak yrði sett á leiguverð og að það þak miðaðist við greiðslur sem væru ekki hærri en sem næmi einum fimmta af heildartekjum heimilisins. „Það yrði náttúrulega draumastaðan,“ sagði Margrét í samtali við blaðamann og sagði aðspurð að sú hugmynd byggðist á því að áður fyrr hafi það þótt eðlilegt að húsnæðiskostnaður væri ekki hærri en sem næmi fimmtungi af tekjum heimilis. „Ef þú ætlar að borða, tala í síma eða hita upp húsnæðið þá geturðu ekki verið að borga 70-100% af tekjunum í húsnæði,“ sagði Margrét. 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, opnaði leigudaginn svokallaða í …
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, opnaði leigudaginn svokallaða í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leigudaginn opnaði ráðherra húsnæðismála, Ásmundur Einar Daðason, sem lagði m.a. áherslu á að í nýsamþykktum lífskjarasamningum hefði þriðjungur af innleggi stjórnvalda snúið að aðgerðum á sviði húsnæðismarkaðarins. Margrét Kristín sagði um þetta að hún væri full vonar eftir ræðu Ásmundar, og að hún bindi miklar vonir við loforð ríkisstjórnarinnar sem komu fram lífskjarasamningunum.

Leiguþök af hinu vonda

Einnig tók til máls Sigurður Helgi Guðjónsson, framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins, sem var á talsvert öðru máli en Margrét í ræðu sinni. „Leiguþök eru almennt slæm og af hinu vonda,“ var á meðal þess sem hann sagði og lagði áherslu á að áhætta leigusalans væri mun meiri en leigjandans, þar sem leigjandanum væru látin í té umtalsverð verðmæti í skiptum fyrir greiðslur sem væru hlutfallslega miklu verðminni. Þá sagði hann að ekki ætti að fara í breytingar á húsaleigulögum einungis breytinganna vegna. Þá væri betur heima setið en af stað farið.

Það leyndi sér ekki í morgun að Sigurður Helgi Guðjónsson, …
Það leyndi sér ekki í morgun að Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, er lítt hrifinn af hugmyndum um þak á leiguverð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um þennan málflutning sagði Margrét: „Með fullri virðingu, þá leið mér svolítið eins og hann væri læstur inni í landi sem hefði ekkert með raunveruleikann að gera. [Hann] er í raun og veru talsmaður þessa gamla hugsunarháttar þar sem markaðshyggja og trygging leigusalans á að vera í fyrsta, öðru, þriðja, fjórða og fimmta sæti.“ 

Lísa Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, flutti erindi um húsaleigulög.
Lísa Margrét Sigurðardóttir, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, flutti erindi um húsaleigulög. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert