Arkþing verður hluti af Nordic Office of Architecture

Eskild Andersen, arkitekt og forstjóri Nordic - office of Architecture, …
Eskild Andersen, arkitekt og forstjóri Nordic - office of Architecture, og eigendur Arkþings. Ljósmynd/Aðsend

Arkitektastofan Arkþing hefur sameinast einni stærstu arkitektastofu á Norðurlöndunum, Nordic – office of Architecture. Samningur þessa efnis var undirritaður 1. júní sl. Nordic er norsk arkitektastofa með starfsemi í Noregi, Danmörku og Bretlandi og eftir viðskiptin verða starfsmennirnir alls 220 talsins í fjórum löndum. Starfsemin á Íslandi verður áfram leidd af sömu aðilum og stýrt hafa Arkþingi síðustu ár. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Nokkur aðdragandi var að ákvörðuninni en gott samstarf hefur myndast með Arkþingi og Nordic á síðustu árum. Arkitektar beggja stofa hafa þannig komið sameiginlega að hönnun nokkurra nýrra verkefna á þessu tímabili. Einnig skipti máli við ákvörðunina að mikill samhljómur er í menningu fyrirtækjanna tveggja sem bæði eru gamalgrónar stofur á sínum heimamarkaði, Arkþing á Íslandi og Nordic í Noregi.

Höfuðstöðvar neyðar- og öryggissveita í Noregi.
Höfuðstöðvar neyðar- og öryggissveita í Noregi. Ljósmynd/Aðsend

Áhersla beggja stofa hefur ávallt verið á gæði vinnunnar og þá hafa þær byggt upp sérþekkingu á ólíkum sviðum sem mun nýtast vel í sameinuðu fyrirtæki. Svo dæmi sé nefnt þá hefur Nordic mikla reynslu af hönnun flugstöðva og sjúkrahúsa og Arkþing hefur reynslu af hönnun hótela, slökkvistöðva, skrifstofubygginga, fjölbýlishúsa og einbýlishúsa.

„Við lítum á þetta sem stórt tækifæri fyrir okkur og með samruna þessara teiknistofa munu þær verði öflugri og betur í stakk búnar til að takast á við krefjandi verkefni til framtíðar. Við erum bjartsýn á langtímahorfur í íslenskum byggingariðnaði og á hönnunarmarkaði. Hafandi verið í rekstri í þetta langan tíma á Íslandi þá vitum við hins vegar að það koma alltaf sveiflur. Það er því gott fyrir stöðugleika í rekstri stofunnar að geta unnið að alþjóðlegum verkefnum ef samdráttur verður hér á landi.“ Þetta segir Sigurður Hallgrímsson, stjórnarformaður og einn af stofnendum Arkþings, meðal annars í tilkynningu.

Höfuðstöðvar Landsbankans sem unnið er að.
Höfuðstöðvar Landsbankans sem unnið er að. Ljósmynd/Aðsend

Stærstu verkefni Arkþings um þessar mundir eru nýjar höfuðstöðvar Landsbankans og stór fjölbýlishús víðsvegar um borgina. Stærstu verkefnin sem Nordic vinnur nú að eru m.a. uppbygging stjórnarráðshverfisins í miðbæ Oslóar, stækkun á Gardermoen, aðalflugvelli Noregs, og nýtt háskólasjúkrahús í Stavangri.

„Við erum afar ánægð að stíga þetta skref með Arkþingi. Þróunin á Norðurlöndunum hefur í auknum mæli verið sú að stofur renni saman og við það hafa orðið til stærri einingar sem ráða við stærri verkefni. Við höfum unnið að verkefnum í samstarfi við Arkþing á Íslandi síðustu ár og þetta er rökrétt framhald af þeirri vinnu og því samstarfi,“ segir Eskild Andersen, arkitekt og forstjóri Nordic - office of Architecture, meðal annars í tilkynningu. 

Hof á Akureyri var eitt af verkefnum stofunnar.
Hof á Akureyri var eitt af verkefnum stofunnar. Ljósmynd/Aðsend
Ein af byggingum fyrirtækisins í Nanchang.
Ein af byggingum fyrirtækisins í Nanchang. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert