Markmiðin halda manni við efnið

Guðjón tekur við viðurkenningu frá skólastjóra Verzlunarskólans, Inga Ólafssyni.
Guðjón tekur við viðurkenningu frá skólastjóra Verzlunarskólans, Inga Ólafssyni. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er auðvitað spurning um skipulag og að fylgja áætlun, fylgjast með í tímum, gera heimavinnuna og læra fyrir próf. Svo skiptir áhuginn miklu máli. Manni gengur ekki vel í því sem maður nennir ekki,“ segir Guðjón Ari Logason nýstúdent. Guðjón útskrifaðist úr Verzlunarskóla Íslands í lok maí með meðaleinkunnina 9.74, sem er hæsta einkunn sem gefin var þetta árið.

Aðspurður segist Guðjón hafa stefnt að því að dúxa þetta árið eftir að hafa verið á meðal þeirra sem fengu viðurkenningu fyrir námsárangur fyrstu tvö árin.

„Þegar ég byrjaði í Versló var ég ekki að stefna að þessu. Svo dúxaði ég á fyrsta ári og þá byrjaði ég að stefna aðeins upp á við.“

Guðjón segist síðan hafa búist við því að hljóta heiðurinn fyrir útskriftardaginn sjálfan eftir frábært gengi á árinu.

Guðjón ásamt foreldrum sínum á útskriftardaginn.
Guðjón ásamt foreldrum sínum á útskriftardaginn. Ljósmynd/Aðsend

„Ég var nú búin að reikna þetta eitthvað út og komast að því að ég ætti að vera með þetta. Þannig ég bjóst nú við þessu á útskriftardaginn sjálfan svo þetta kom mér ekkert þannig á óvart neitt. Þetta var ekki leiðinlegt.“

Að sögn Guðjóns spila margir ólíkir þættir inn í velgengni hans í skólanum og segir hann það vera algjört lykilatriði að hafa áhuga á námsefninu og sjálfstraust í því sem maður tekur sér fyrir hendur.

„Svo er þetta líka spurning um eljusemi og að hafa markmið. Þau halda manni við efnið. Það er margt sem spilar inn í.“

Stefnan sett á Bandaríkin 

Guðjón segir að stefnan sé nú sett á Bandaríkin þar sem hann hyggst spila körfubolta og læra. Hann segist hvorki hafa ákveðið í hvaða skóla hann ætli né hvað hann komi til með að læra, en valið standi líklega á milli hagfræði og sálfræði.

Guðjón og kærasta hans Birta á útskriftardaginn.
Guðjón og kærasta hans Birta á útskriftardaginn. Ljósmynd/Aðsend

„Helsta ástæðan fyrir því að ég legg mikið upp úr því að ganga vel í skólanum er sú að mig langar að fara til Bandaríkjanna í skóla. Það hefur verið drifkrafturinn frá því nánast í áttunda bekk.“

Áður en ferðinni er þó heitið vestur fyrir haf segist Guðjón ætla að taka sér smá frí frá námi til að vinna og undirbúa næstu ár.

„Ég ætla taka mér árspásu og stefni á að fara út haustið 2020. Ég ætla að vinna bara og safna pening fyrir komandi tímum, kannski ferðast eitthvað smá og undirbúa mig bara fyrir framhaldið. Það er hitt og þetta sem þarf að gera.“

Sá árgangur sem nú útskrifaðist úr Verzlunarskólanum er annar árgangurinn sem lýkur framhaldsskólanámi frá skólanum á þremur árum. Aðspurður segist Guðjón hafa verið feginn að klára námið á þremur árum þó svo að félagslegi þátturinn hefði ef til vill fengið meira rými í fjögurra ára námi.

„Það var náttúrulega mikið álag en ég veit svosem ekki hvernig fjögurra ára kerfið var. Það eru kostir og gallar við þetta, plúsar og mínusar. Ég hefði kannski viljað vera lengur út af félagslega þættinum en námslega var maður kannski á síðustu dropunum ef svo má segja. Maður var ekkert að hata það að útskrifast og klára þetta bara.“

mbl.is