600 milljón króna fjáraukning til barnaverndar

Grunnvinnsla barnaverndarmála á fyrstu stigum verður efld, stuðlað verður að …
Grunnvinnsla barnaverndarmála á fyrstu stigum verður efld, stuðlað verður að snemmtækri íhlutun og samvinna ríkis og sveitarfélaga verður efld og gagnreyndum úrræðum fjölgað. mbl.is/Ómar Óskarsson

Alþingi samþykkti tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar til fjögurra ára. Hún felur í sér að grunnvinnsla barnaverndarmála á fyrstu stigum verður efld, stuðlað verður að snemmtækri íhlutun og samvinna ríkis og sveitarfélaga verður efld og gagnreyndum úrræðum fjölgað. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands. 

Gert er ráð fyrir 600 milljón króna fjáraukningu til þess að byggja upp og þróa úrræði og þjónustu í málaflokknum. Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mælti fyrir henni 29. apríl síðastliðinn. 

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra mælti fyrir tillögunni.
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra mælti fyrir tillögunni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Framkvæmdaáætlunin er liður í heildarendurskoðun í málefnum barna og mikilvægt skref í átt að því að skapa heildarsýn og samfellu í þeirri þjónustu og í þeim úrræðum sem standa börnum og foreldrum til boða. Áætlunin er metnaðarfull og yfirgripsmikil og unnin í góðu samráði við helstu hagsmunaaðila sem er lykilatriði í þeirri vinnu sem nú stendur yfir í tengslum við málefni barna.“ Þetta er haft eftir Ásmundi Einari.

Félagsmálaráðuneytið, Barnaverndarstofa og barnaverndarnefndir sveitarfélaga munu vinna samkvæmt áætluninni með meginmarkmið barnaverndarlaga að leiðarljósi; að tryggja viðunandi uppeldisskilyrði barna og að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert