Andlát: Atli Magnússon

Atli Magnússon.
Atli Magnússon. mbl.is/Einar Falur

Atli Magnússon, þýðandi, rithöfundur og blaðamaður, er látinn, 74 ára að aldri. Hann lést á heimili sínu í Hafnarfirði aðfaranótt 14. júní.

Atli fæddist í Súðavík 26. júlí 1944 og ólst þar upp fyrstu ár ævi sinnar en flutti til Reykjavíkur á 7. aldursári og ólst að mestu upp hjá föðurforeldrum sínum.

Hann var stóran hluta starfsævinnar tengdur prentmiðlum, fyrst í prófarkalestri á Þjóðviljanum og síðar blaðamaður á Tímanum þar sem hann starfaði í yfir 20 ár. Meðfram blaðamennsku lagði Atli stund á ritstörf og eftir hann liggja ótal þýðingar og viðtalsbækur.

Hann ritstýrði Sjómannablaðinu Víkingi um árabil og starfaði um skeið sem dagskrárfulltrúi á ríkisútvarpinu. Hann þýddi mörg af stórvirkjum heimsbókmenntanna eins og Meistara Jim, Nostromo og Innstu myrkur eftir Joseph Conrad, Gatsby og Nóttin blíð eftir F. Scott Fizgerald, Mrs. Galloway eftir Virginiu Woolf, Hið rauða tákn hugprýðinnar eftir Stephen Crane og Fall konungs eftir Johannes V. Jensen.

Hann skrifaði að auki Skært lúðrar hljóma, sögu lúðrasveita á Íslandi, en hann starfaði tæp 30 ár í Lúðrasveit verkalýðsins og er heiðursfélagi sveitarinnar. Atli lætur eftir sig einn son og fjögur barnabörn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert