Dæmd fyrir innflutning og hlutdeild

Fólkið var dæmt fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot í Héraðsdómi Reykjaness.
Fólkið var dæmt fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot í Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness dæmdur til þriggja ára fangelsisvistar þann 5. júní sl. fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á rúmlega fjórum kílóum af amfetamíni, ætluðu til sölu- og dreifingar í ágóðaskyni, en efnið var falið í tveimur fæðubótardunkum sem komu til Íslands með hraðsendingu frá Hollandi.

Kona var einnig dæmd í málinu fyrir hlutdeild í innflutningnum með því að hafa aðstoðað við afhendingu fíkniefnanna. Fékk hún tíu mánaða skilorðsbundinn dóm, en hún var ákærð fyrir að hafa, að beiðni mannsins, tekið við pakkanum á vinnustað sínum, FedEx í Hafnarfirði og afhent honum. Þar starfaði maðurinn einnig þar til skömmu áður en atvik málsins áttu sér stað. Játaði hann sök, en konan neitaði og krafðist sýknu.

Beittu eftirfarar- og hljóðupptökubúnaði

Yfirvöld komust á snoðir um málið þegar tollvörður var við störf í húsnæði FedEx við eftirlit með erlendum hraðsendingum og skoðaði sendinguna, en upp frá því fylgdist lögregla með sendingunni og var með úrskurði heimilað að setja eftirfarar- og hljóðupptökubúnað í umrædda sendingu sem hafi verið sett „aftur í ferli hjá FedEX.“

Hafði lögregla á þessum tímapunkti ákærða til rannsóknar og upplýsingar um að hann ætti von á stórri sendingu fíkniefna mjög fljótlega og ákvað lögregla að kanna hvort sendingin tengdist ákærða.  

Í dómsniðurstöðunni kemur fram að samkvæmt skýrslu ákærðu fyrir dómi hafi hún tekið að sér að taka við pakka á vinnustað sínum. Lýsing á hátterni hennar á vinnustaðnum daginn sem sendingin kom styddi þetta, en m.a. fékk lögregla aðgang að myndbandsupptökum þar við rannsókn málsins. 

Hafi ekki horfið frá þátttöku sinni

Ákærða byggði m.a. á því að hún hefði talið að sterar væru í sendingunni, en ekki fíkniefni. Þá byggði hún á því að hún hafi í raun horfið frá þátttöku sinni, en hún lét samstarfskonu sína sem annaðist sendingar í Breiðholtinu fá pakkann sem afhenti hann skráðum viðtakanda sem var ekki ákærði sjálfur.

Dómurinn taldi að ákæruvaldið hefði fært fram lögfulla sönnun fyrir því að ákærða hafi orðið hlutdeildarmaður í brotinu og að skilyrði afturhvarfs væru ekki uppfyllt. Hún hafi tekið að sér að taka við umræddum pakka og afhenda hann meðákærða. 

„Þegar ákærða afhenti samstarfskonu sinni pakkann til útkeyrslu til skráðs viðtakanda gat hún [...] ekki miðað við að pakkinn, sem hún vissi að í væru ólögleg efni, yrði ekki eftir í höndum viðtakandans. Ákærða vissi ekki annað um viðtakandann en nafnið og gat engan veginn treyst á að hann kæmi efnunum í hendur lögreglu eða fargaði þeim sjálfur,“ segir í niðurstöðu dómsins. Þá hafi henni verið ljóst að meðákærði vissi nafn viðtakandans og hugsanlegt væri að hann freistaði þess að ná pakkanum frá viðtakandanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert