Skellti sér í frönsku um áttrætt

Sigurður Egill Þorvaldsson læknir með BA-ritgerðina um Ambroise Paré.
Sigurður Egill Þorvaldsson læknir með BA-ritgerðina um Ambroise Paré. Haraldur Jónasson/Hari

Aldrei er of seint að skella sér í nám. Lýtalæknirinn Sigurður Egill Þorvaldsson, sem verður 83 ára í haust, er gott dæmi, en hann skellti sér í frönskunám í Háskóla Íslands fyrir tæplega fjórum árum og brautskráðist með BA-gráðu í gær.

„Það er kannski með ólíkindum að á níræðisaldri skuli maður láta sér detta þetta í hug, en svona er þetta bara,“ segir hann kátur og þakkar Ásdísi Rósu Magnúsdóttur, leiðbeinanda sínum í lokaritgerðinni, fyrir óþrjótandi þolinmæði og hvatningu. „Ásta Ingibjartsdóttir og François Heenen gæddu málfræði og sögu tungumálsins lífi svo tímarnir liðu fljótt. Samnemendur mínir voru yfirleitt um 60 árum yngri en ég en létu mig aldrei finna fyrir þeim aldursmun. Það var gaman að vera innan um ungt fólk.“

Sigurður lærði fyrst frönsku í 5. bekk Verzlunarskóla Íslands, svokallaðri stúdentsdeild, sem var 5. og 6. bekkur, en sat í nokkrum tímum hjá Melittu, eiginkonu Victors Urbancic, tónlistarmanns frá Austurríki, áður en námið hófst. Hann tók frönskuna alvarlega og stóð sig býsna vel. 

Að loknu stúdentsprófi hvatti Melitta hann til þess að fara til Frakklands og vinna á frönskum bóndabæ. Hann tók hana á orðinu og með aðstoð franska sendiherrans varð þetta að veruleika. Þegar hann kom aftur heim blundaði í honum að læra meira í frönsku en læknisfræðin varð ofan á. En enn blundaði áhugi á frönsku og að loknu námi í almennum skurðlækningum í Bandaríkjunum leitaði hann fyrir sér um framhaldsnám í lýtalækningum við sjúkrahús í Montreal í Kanada. „En skilyrði til inntöku var að vera tvítyngdur, og þó ég hefði skilning á rituðu máli að einhverju marki gat ég ekki talist tvítyngdur og þar með var ég úr leik,“ rifjar hann upp.

Eftir að hann hætti að starfa tók hann af og til kúrsa hjá Alliance Française. „Þar var Ásta Ingibjartsdóttir kennari en hún var einnig kennari við HÍ og hún hvatti mig til þess að hefja háskólanám í tungumálinu.“

Hann rifjar upp að eitt ritgerðarverkefnið í náminu við Háskóla Íslands hafi verið „Hvers vegna í ósköpunum datt þér í hug að læra frönsku?“ „Í stuttu máli hef ég svarað því hér að framan,“ segir hann.

Lokaritgerð Sigurðar fjallar um ævi og störf Ambroise Paré, sem kallaður hefur verið „faðir franskra skurðlækninga“. Sigurður bendir á að hann hafi verið uppi á 16. öld, verið læknir fjögurra konunga og aflað sér mikillar reynslu sem herlæknir en skotvopn í hernaði voru þá nýkomin til sögunnar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert