Fögnuðu nýju jafnréttisákvæði

Staða fríverslunarviðræðna, horfur í alþjóðaviðskiptum, samskiptin við Evrópusambandið og Brexit …
Staða fríverslunarviðræðna, horfur í alþjóðaviðskiptum, samskiptin við Evrópusambandið og Brexit voru helstu umræðuefni fundarins, Ljósmynd/EFTA

Ráðherrar Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, fögnuðu því að EFTA hefur nú uppfært samningsmódel sitt um sjálfbæra þróun og tekið inn í það jafnréttisákvæði, að frumkvæði Íslands, á árlegum fundi sínum í Liechtenstein í dag.

Þetta kemur fram í frétt á vef Stjórnarráðsins, en þar segir að staða fríverslunarviðræðna, horfur í alþjóðaviðskiptum, samskiptin við Evrópusambandið og Brexit hafi verið helstu umræðuefni fundarins, en hann sátu auk Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra þau Aurelia Frick, utanríkisráðherra Liechtentstein, Torbjørn Røe Isaksen, iðnaðar- og viðskiptaráðherra Noregs og Guy Parmelin, ráðherra efnahagsmála, menntunar og rannsókna í sambandsstjórn Sviss.

Átta nýjum greinum hefur verið bætt inn í samningsmódel EFTA, meðal annars um viðskipti og loftslagsbreytingar, líffræðilegan fjölbreytileika og sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Þá er sérstök grein um jafnrétti kynjanna þar sem ríki skuldbinda sig til að hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi í viðskiptum sín á milli.

„Jafnrétti er einn af hornsteinum utanríkisstefnunnar og í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á að við gerð fríverslunarsamninga skuli sérstaklega horft til þess að efla umhverfissjónarmið og mannréttindi, þar með talið réttindi kvenna. Það er fagnaðarefni að ákvæði þess efnis hafi nú verið tekið upp í samningsmódel EFTA að tillögu Íslands,“ segir Guðlaugur Þór í tilkynningunni. 

Árlegur sumarfundur EFTA-ráðherranna var að þessu sinni haldinn í bænum …
Árlegur sumarfundur EFTA-ráðherranna var að þessu sinni haldinn í bænum Malbun í Liechtenstein. Ljósmynd/EFTA
mbl.is