Reyndi að komast stystu leiðina

Unnið að því að draga bíl ferðamannanna upp úr Krossá …
Unnið að því að draga bíl ferðamannanna upp úr Krossá í gær. Ljósmynd/Ágúst Jóhann Georgsson

Ekki er óalgengt að ökumenn lendi í ógöngum við Krossá í Þórsmörk og festi bíla sína í ánni, segir Ágúst Jóhann Georgsson, skálavörður í Langadal. Erlendir ferðamenn festu bíl sinn í ánni í gær er þeir hugðust aka yfir hana, en dýptin reyndist meiri en gert hafði verið ráð fyrir.

Skála­verðir í Þórs­mörk, björg­un­ar­sveitar­fólk og aðrir sem voru stadd­ir á svæðinu drógu bíl­inn upp úr ánni og var Ágúst þeirra á meðal.

Ágúst segir ferðamennina hafa ætlað að keyra yfir ána þar sem hún væri styst, en að þar hafi einnig verið hvað dýpst.

„Hann fór réttu megin yfir en þegar hann var að fara tilbaka sá hann bíl vera að fara þar og fannst það of djúpt þannig að hann fór þar sem var styst,“ segir Ágúst.

Ljósmynd/Ágúst Jóhann Georgsson

Bílinn flaut þá upp og niður eftir ánni og festist í göngubrúnni, en samkvæmt Ágústi flaut bíllinn líklega um tvo metra niður ánna. Bílinn var af tegundinni Dacia Duster og mun vera ónýtur, en ferðamennina tvo sakaði ekki.

„Þeir voru bara ósköp skömmustulegir og leiðir eitthvað,“ segir Ágúst.

Samkvæmt Davíð Má Bjarnasyni, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, voru engar björgunarsveitir kallaðar út, en að það björgunarsveitarfólk sem var á ferðinni í Þórsmörk hafi verið kallað til og aðstoðað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert