Vildi bætur en var sjálfur grunaður

Rannsókn málsins var hætt á grundvelli þess að bruninn hefði …
Rannsókn málsins var hætt á grundvelli þess að bruninn hefði ekki valdið hættu á líkamstjóni eða eignatjóni annarra en þess sem grunaður var um verknaðinn. mbl.is/Ófeigur

Tryggingamiðstöðin var í gær sýknuð af bótakröfu vegna eldsvoða á gistiheimili á Vesturlandi í janúar 2016, en eigandi gistiheimilisins var grunaður um að hafa sjálfur orðið valdur að upptökum eldsins.

Sjálfur bar eigandinn við minnisleysi vegna ölvunar, en vitnum, sem höfðu verið með honum á þorrablóti fyrr um kvöldið og síðar á veitingahúsi gistiheimilisins, bar saman um, við skýrslutökur lögreglu, að eigandinn hafi verið ölvaður, orðið illvígur og haft í hótunum við börn og fullorðna og lent í slagsmálum við svila sinn og eiginkonu.

Þá vitnaði dyravörður á umræddu þorrablóti til um það að eigandinn hefði reynt að kveikja í salernispappír inni á salerni húsnæðisins þar sem þorrablótið var haldið.

Að mati Héraðsdóms Reykjavíkur var ekki óvarlegt að álykta að eldsupptök mætti rekja til háttsemi eigandans, en sá hafði áður verið grunaður, þegar ölvunarástand hans var líkt því sem var umrædda nótt, um tilraun til íkveikju í fjölbýlishúsi.

Eigandinn bar það fyrir sig, auk minnisleysis, að það hefði verið algerlega andstætt hagsmunum hans að eyðileggja þær byggingar sem hann hefði sjálfur lagt hart að sér við að reisa og sá fram á að gætu skapað honum tekjur, en rannsókn málsins var hætt á grundvelli þess að bruninn hefði ekki valdið hættu á líkamstjóni eða eignatjóni annarra en þess sem grunaður var um verknaðinn.

Dómurinn segir hins vegar óhætt að fullyrða að dómgreind mannsins hafi verið verulega skert umrædda nótt og hann hafi því verið líklegri en ella til að grípa til aðgerða sem hvorki voru skynsamlegar né rökréttar.

„Loks verður ekki fram hjá því litið að fyrirsvarsmaður stefnanda, sem sjálfur varð fyrir verulegu eignatjóni í brunanum, hefur ekki lagt fram kæru hjá lögreglu vegna íkveikjunnar og gerði hvorki athugasemdir við að rannsókn lögreglu yrði hætt né óskaði eftir nánari rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun. Þá hefur hann heldur ekki, þrátt fyrir áskorun stefnda, lagt fram matsgerð sálfræðings, sem unnin var í tengslum við rannsókn lögreglu á málinu. Af því sem rakið er úr niðurstöðu matsgerðar sálfræðingsins í bréfi lögreglustjórans, þar sem tilkynnt er um að rannsókn málsins hafi verið hætt, er ekki hægt að útiloka að þar sé að finna frekari upplýsingar sem varpað geta ljósi á ástand og athafnir fyrirsvarsmanns stefnanda nóttina sem bruninn varð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert