Handteknar með fíkniefni og þýfi

Lögreglustöðin við Hlemm.
Lögreglustöðin við Hlemm. mbl.is/Golli

Tvær ungar konur voru handteknar á fimmta tímanum í nótt í Breiðholti fyrir að fara inn í bifreiðar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru þær í annarlegu ástandi með fíkniefni og þýfi meðferðis. Þær eru báðar vistaðar í fangageymslum lögreglunnar.

Alls voru 56 mál bókuð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 í gær þangað til fimm í morgun. Sex ökumenn voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Allir látnir lausir eftir sýnatöku nema einn sem var vistaður í fangageymslu. Sá hafði misst stjórn á bifreið sinni sem hafnaði á ljósastaur í Kópavoginum um eitt í nótt. Bifreiðin var óökufær en ökumaður ómeiddur.

Óskað eftir aðstoð lögreglu í afgreiðslu slysadeildar í Fossvogi vegna manns í annarlegu ástandi sem var þar með læti á tíunda tímanum í gærkvöldi. Við afskipti veittist hann að og hrækti á öryggisvörð og lögreglu. Handtekinn og vistaður í fangageymslu.

Í Breiðholtinu var tilkynnt um innbrot og þjófnað úr heimahúsi. Ýmsum smámunum stolið. Málið er í rannsókn en tilkynnt var um innbrotið um kvöldmatarleytið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert