Fresta framkvæmdum í Landeyjahöfn

Landeyjarhöfn.
Landeyjarhöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Vegagerðin hefur ákveðið að fresta breytingu á hafnarmynni Landeyjahafnar til næsta sumars. Til stóð að útbúa plön fyrir dælukrana á endum hafnargarðanna  á grjótfylltum stáltunnum.

Samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að hefja átti dælingu með nýjum dælubúnaði síðla næsta árs, en búnaðurinn hefur verið keyptur og er kominn til landsins. Áfram er miðað við að svo geti orðið, en dælubúnaðurinn verður prófaður í haust og í vetur á öðrum stað en í hafnarmynninu.

Fram kemur að samkomulag hafi náðst við verktakann um þessa breytingu, en hún er jafnframt gerð í samráði við skipstjórnarmenn Herjólfs, sem telja ekki ráðlagt að ráðist sé í breytingu á höfninni á sama tíma og reynsla er að komast á siglingar á nýja skipinu. Einnig er kostur að veðurskilyrði eru sem best til framkvæmda við hafnarmynnið snemmsumars.

Unnið hefur verið að breytingu á innri höfninni að undanförnu og verður henni lokið á næstu mánuðum. Breytingin felst í því að rýmka snúningspláss fyrir Herjólf og draga úr ókyrrð við hafnarbakkann, sem eykur öryggi sjófarenda í höfninni.

mbl.is