Mikill viðbúnaður vegna hundsleitar

Lögreglumenn brunuðu á staðinn á bláum ljósum og tóku á …
Lögreglumenn brunuðu á staðinn á bláum ljósum og tóku á sprett út í móa en þar reyndis allt vera í toppmálum og hundurinn meira að segja fundinn. mbl.is/Eggert

Allt tiltækt lið lögreglunnar á Suðurnesjum var kallað út með forgangi í vikunni, eftir að ábending barst um að tvær manneskjur væru úti í móa og að önnur þeirra æpti ítrekað á hjálp á enskri tungu.

Tilkynnanda fannst eins og þarna væru barsmíðar í gangi, en raunin var sú að þarna voru tvær konur að leita að hundi sem heitir Heaven.

Þessa skemmtisögu segir lögreglan á Suðurnesjum á Facebook-síðu sinni, en konurnar tvær voru staddar talsvert utan vegar og þurftu lögreglumenn að hlaupa þær uppi á harðaspretti eftir að hafa komið aðvífandi með blikkandi blá ljós.

Er lögreglumennirnir voru komnir að konunum varð ljóst að hjá þeim væri allt með felldu og hundurinn meira að segja fundinn.

„Þær þökkuðu fyrir veitta aðstoð og skjót viðbrögð lögreglu við leit að hundinum, þótt engin tilkynning um týndan hund hafði borist. Fannst þeim samt einkennilegt að lögreglan kæmi á bláum ljósum í þetta verkefni.

Lögreglumennirnir fengu ágætis æfingu í utanvegaspretthlaupi og afar skítuga skó. En voru fegnir að ekkert slæmt hafði hent,“ segir lögreglan á Suðurnesjum.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert