Í sjálfheldu á syllu við Svínafellslón

Svínafellsjökull í Öræfum.
Svínafellsjökull í Öræfum. Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Mikið hefur mætt á björgunarsveitum á sunnanverðu landinu í dag. 

Um hádegisbil í dag voru björgunarsveitir úr Öræfum kallaðar út vegna ferðamanns í sjálfheldu á gönguleið inn með Hafrafelli við Svínafellsjökul. Maðurinn, sem er á sjötugsaldri, hafði farið út af gönguleið og niður bratta þar sem hann hafði hrasað í skriðum og fallið nokkra metra. Sat hann þar fastur á syllu rétt ofan við lónið við jökulinn. Þurftu björgunarsveitarmenn að síga niður til mannsins, sem hafði fengið í sig grjót og slasast á höfði, koma honum upp og fylgja að sjúkrabíl þar sem gert var að sárum hans.

Viðskila við hópinn á Fjallabaki

Erlend göngukona varð viðskila við gönguhóp sinn á Fjallabaki í eftirmiðdag og skilaði sér ekki í Landmannalaugar þar sem hópurinn hugðist safna saman og taka rútu í bæinn. Björgunarsveitarmenn á hálendisvakt leitaði hennar um tveggja tíma skeið uns hún skilaði sér sjálf í skála við Álftavatn. Hafði hún þá gengið rammvillt um 20 kílómetra leið og var svöng, þreytt, en heil á höldnu.

Þá féll kona af hestbaki á Króksleið neðan Þverárbotna um sjöleytið í kvöld en hún var á leið yfir á Rangárvallaafrétt. Björgunarsveitarmenn hlúðu að konunni og fluttu til móts við sjúkrabíl.

Meðan á þessu verkefni stóð voru tvær konur fastar í bíl á eyri í ánni Syðri-Ófæru, og ljóst að nafn hennar er réttnefni. Hópur af hálendisvakt aðstoðaði þær við að losa bílinn og héldu þær að svo búnu leiðar sinnar.

mbl.is