Ók undir áhrifum með þrjú börn

mbl.is/Eggert

Lögreglan stöðvaði bifreið sem var á ferð um Mosfellsbæ rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi, en ökumaður bifreiðarinnar er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna eða lyfja. Í bifreiðinni voru auk ökumanns þrjú börn á aldrinum 11 til 12 ára og hefur Barnavernd verið kölluð til vegna þessa.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, en þar segir einnig að læknir hafi verið fenginn á lögreglustöðina og hann metið ökumanninn óhæfan til aksturs.

Skömmu áður var bifreið stöðvuð í Árbæ og er ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, vörslu fíkniefna og sömuleiðis brot á vopnalögum. Ástandi bifreiðarinnar mun þá hafa verið áfátt og voru skráningarnúmer hennar fjarlægð.

Sviptur ökuréttindum

Tilkynnt var um umferðarslys í Höfðahverfi í Reykjavík um klukkan hálf níu en þá hafði maður ekið út af vegi á vespu og endað á staur, með áverka á höfði. Var hann fluttur með sjúkrabíl á slysadeild en er grunaður um að hafa verið ölvaður á meðan akstrinum stóð.

Þrír til viðbótar eru grunaðir um akstur undir áhrifum í nótt, en einn þeirra er sautján ára og var mál hans því tilkynnt til Barnaverndar.

Til viðbótar því stöðvaði lögregla bifreið eftir hraðamælingu í Breiðholti á níunda tímanum í gærkvöldi. Hraði hennar mældist 72 km/klst en leyfður hámarkshraði á götunni er 30 km/klst. Var ökumaðurinn því sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert