Sjúkragögn SÁÁ sögð hafa farið á flakk

Frá skrifstofu Persónuverndar á Rauðarárstíg. Tvær tilkynningar hafa borist þangað …
Frá skrifstofu Persónuverndar á Rauðarárstíg. Tvær tilkynningar hafa borist þangað vegna málsins, bæði frá Hjalta og SÁÁ. mbl.is/Eggert

Persónuvernd hefur fengið tvær tilkynningar vegna meðferðar gagna sem sögð eru varða innlagnir sjúklinga á Vík, meðferðarstöð SÁÁ á Kjalarnesi. Gögnin eru í fórum Hjalta Þórs Björnssonar, fyrrverandi dagskrárstjóra hjá SÁÁ, en SÁÁ og Hjalta greinir á um hvernig á því stendur að gögnin eru í hans höndum og segjast báðir aðilar hafa tilkynnt málið til Persónuverndar.

Hjalti, sem starfaði hjá SÁÁ frá 1987 og þar til honum var sagt upp árið 2017, segir að hann hafi fengið pappakassa með trúnaðargögnum um sjúklinga senda heim til sín síðasta haust, ásamt persónulegum eigum sem hann skildi eftir á starfsstöð sinni er honum var sagt upp störfum.

Hann segir að uppsögn sín hafi verið „brútal“ og að samskipti hans við yfirmenn hjá SÁÁ séu við alkul. Hann hafi því skilið töluvert af munum eftir á starfsstöð sinni á Vík, sem hafi svo verið fluttir af starfsmönnum SÁÁ á göngudeild SÁÁ í Efstaleiti í Reykjavík til geymslu.

Hjalti Þór Björnsson, fyrrverandi dagskrárstjóri hjá SÁÁ.
Hjalti Þór Björnsson, fyrrverandi dagskrárstjóri hjá SÁÁ.

Síðan var hann beðinn um að sækja dótið sitt, síðasta haust, að hans sögn eftir að yfirmenn hjá SÁÁ fundu að því að það væri enn í geymslu, en Hjalti segir að hann hafi „ekki saknað þessara hluta neitt.“

„Ég var þá að fara út úr bænum, kom þarna niður eftir og fékk ekki að fara inn í göngudeildina, þannig að kassarnir voru bornir út. Ég áttaði mig ekki á því hvað þetta var mikið og kom ekki öllum kössunum í bílinn minn […] og mátti ekki vera að því að koma aftur. Þá hringir húsvörðurinn aftur og segir að restin verði bara send á mitt heimili og sett í skúrinn. Þá var þetta dót bara borið inn,“ segir Hjalti, en á meðal kassanna voru að hans sögn kassar sem merktir voru á þá vegu að ekki hefði átt að fram hjá neinum að þarna var um að ræða sjúkragögn og innritunarbækur meðferðarstöðvarinnar.

Göngudeild SÁÁ við Efstaleiti.
Göngudeild SÁÁ við Efstaleiti. mbl.is/Valdís Thor

Fór loks yfir gögnin á föstudag

Það var svo á föstudag sem að Hjalti fór loks í gegnum gögnin, sem höfðu staðið inni í bílskúr hjá honum frá því að þau komu frá SÁÁ. Þá sá hann að þarna voru viðkvæm gögn um sjúklinga á Vík.

„Þetta gerist þarna á föstudagskvöldinu og í framhaldi af því þá tilkynni ég þetta til Persónuverndar eins og lög gera ráð fyrir. Ég er heilbrigðisstarfsmaður og veit hvernig á að fara með slík mál og geri mér grein fyrir hversu alvarlegt þetta er,“ segir Hjalti.

„Honum hafa ekki verið send nein gögn“

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, segir það ekki rétt að Hjalti hafi fengið gögnin send, heldur hafi hann tekið þau sjálfur. Blaðamaður færði honum þær fregnir á föstudagskvöld að Hjalti segðist vera með einhver viðkvæm gögn undir höndum og þá kom hann alveg af fjöllum.

Arnþór segir í dag að hann hafi sett sig inn í málið og að SÁÁ sé búið sé að tilkynna það til Persónuverndar, sem hafi ætlað sér að vera í sambandi við Hjalta og fá gögnin afhent.

„Honum hafa ekki verið send nein gögn, þetta er bara eitthvað sem hann hefur tekið sjálfur. Við vitum ekkert hvaða gögn þetta eru. Persónuvernd er að reyna að fá þessi gögn afhent hjá honum, ég veit ekki alveg hvaða gögn hann er að tala um. En það er enginn hætta á ferðum, hann er sem fyrrverandi yfirmaður hjá SÁÁ og núverandi heilbrigðisstarfsmaður bundinn sama trúnaði gagnvart okkar skjólstæðingum og ef hann væri í vinnu,“ segir formaðurinn.

Arnþór Jónsson formaður SÁÁ segir að Hjalti hafi ekki fengið …
Arnþór Jónsson formaður SÁÁ segir að Hjalti hafi ekki fengið nein gögn send frá SÁÁ, heldur sótt þau sjálfur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurður hvort að hann telji að Hjalti Þór sé að ljúga til um það að hafa fengið gögnin send frá SÁÁ, segir Arnþór:

„Hann hefur ekkert fengið nein gögn send. Það er einhver vitleysa, hann sótti þetta og fór með þetta heim til sín sjálfur. Hann pakkaði öllu niður og fór með það sjálfur heim. Hann hefur þá kannski verið að blanda einhverjum persónulegum munum við trúnaðargögn. Við erum bara að reyna að komast að því hvað þetta er og tilkynntum þetta til Persónuverndar um leið og við vissum af þessu, þannig að málið er bara í lögformlegum farvegi. Það verður óskað eftir því að hann afhendi þessi gögn strax, tafarlaust. Hann hefur engin gögn fengið send frá okkur,“ segir Arnþór.

Hjalti segir að það komi honum ekki á óvart formaður SÁÁ neiti því að SÁÁ hafi fært honum gögnin. „Ég er ekkert hissa á því, því að þetta er býsna alvarleg staða, að svona gögn séu á þvælingi og glámbekk,“ segir Hjalti og bætir við að Persónuvernd hafi sett sig í samband til þess að fá gögnin afhent.

Það verður þó að sögn Hjalta ekki fyrr en í fyrsta lagi 13. ágúst, þar sem hann fór austur á land um helgina og verður þar þangað til, við göngur um Lónsöræfi og Víknaslóðir. Hann segist hafa komið gögnunum fyrir í læstri skjalageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert