Öxnadalsheiði lokað vegna umferðarslyss

Talsvert magn olíu lekur úr bílnum. Ökumaðurinn er alvarlega slasaður.
Talsvert magn olíu lekur úr bílnum. Ökumaðurinn er alvarlega slasaður. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Öxnadalsheiði hefur verið lokað fyrir umferð um óákveðinn tíma vegna umferðarslyss. Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og beinir þeim tilmælum til vegfarenda að aka um Ólafsfjörð og Siglufjörð hvort sem menn eru á norður- eða suðurleið.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá lögreglu að Öxnadalsheiðin sé lokuð skammt vestan Grjótár meðan á björgunaraðgerðum stendur.

Lögreglan á Norðurlandi vestra sagði samtali við mbl.is að ökumaður bílsins sé alvarlega slasaður og verið sé að flytja á sjúkrahúsið á Akureyri.

Um er að ræða olíubifreið með olíufarm sem valt út af veginum og miðast björgunaraðgerðir, við að reyna að takmarka olíumengun eins og mögulegt er. Lögregla segir talsverðan olíuleka vera frá bílnum. „Það er búið að hefta að hann komi út í vatn, en það er verið að vinna að því að stöðva hann,“ segir vakthafandi lögreglumaður. Hafa gröfur m.a. verið fengnar á staðinn til að hefta að olían berist út í nærliggjandi á.

Mbl.is hefur eftir sjónarvotti á vettvangi að 30.000 lítrar af olíu séu í bílnum.

Búast má við að vegurinn verði lokaður frameftir degi þar sem einhverjar klukkustundir muni taka að dæla olíunni af bílnum.

Töluverður er nú við vinnu á slysstað, en auk lögreglu koma slökkviliðin á Sauðárkróki og Akureyri að málinu.

Lögreglan á Norðurlandi vestra fer með rannsókn málsins og nýtur aðstoðar lögreglunnar á Norðausturlandi.

uppfært klukkan 13:00:

Annað umferðaslys varð á Ólafsfjarðarvegi um hádegi. Vinnur lögregla nú á vettvangi ásamt slökkviliði Dalvíkur. Einn einstaklingur var fluttur slasaður með sjúkrabíl. 

Gröfur eru notaðar til að hindra að olían berist út …
Gröfur eru notaðar til að hindra að olían berist út í nærliggjandi á. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert