Lögregla setur sig í stellingar

Úr brekkusöngnum í fyrra. Þjóðhátíð er að skella á og …
Úr brekkusöngnum í fyrra. Þjóðhátíð er að skella á og raðir lögreglu eru þéttar í ár. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Þjóðhátíð í Eyjum skellur að einhverju leyti á í kvöld. Húkkaraballið fer að byrja. Það koma 15 lögreglumenn úr landi yfir helgina til að aðstoða Eyjamenn. 10 eru á vakt fyrir. Þá koma einnig tveir sérsveitarmenn úr Reykjavík. 27 samtals. Það er mikil mönnun. Fjórir hundar þefa eftir eiturlyfjum. 

„Við reynum bara að vera viðbúin öllu og bjóða upp á alla þá þjónustu sem við getum. Auk þessara 27 lögreglumanna er mikið viðbragðsteymi í dalnum, sjúkrabílar og læknar á vakt allan tímann,“ segir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. 

Gríðarlegur fjöldi er þegar kominn í bæinn, brottfluttir Eyjamenn eiga það margir til að mæta í byrjun viku, og stemningin er góð, segir Páley. „Við vitum að hátíðin verður stór í ár. Herjólfur fer aukaferð á morgun og hann hefur þegar farið nokkrar ferðir í dag með margt fólk,“ segir hún. 

Margmenni var við höfnina í morgun þegar báturinn mætti með …
Margmenni var við höfnina í morgun þegar báturinn mætti með sendingu af fólki. Fólk er tekið að streyma til Eyja og margir hafa þegar komið sér fyrir í Herjólfsdal í tjöldum. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

130 gæslumenn verða þá starfandi alla helgina á vegum þjóðhátíðarnefndar. Að sögn Páleyjar eru þessir starfsmenn margir mjög reynslumiklir viðbragðsaðilar á svona hátíðum, margir, sem koma aftur ár eftir ár á Þjóðhátíð. Þetta fólk er á launum.

Fleiri fíkniefnahundar í ár

Í fyrra voru aðeins tveir fíkniefnahundar á svæðinu en í ár verða fjórir. Sex lögreglumannanna eru í sérstöku fíkniefnateymi og þeir eru með þrjá hunda. Annar bætist við á morgun. „Þeir fara í allt sem þarf að fara, í húsleitir, farangur og leita á gestum,“ segir Páley.

Fíkniefnahundar eru umdeild tækni en Páley segir þó að yfirleitt sé þeim vel tekið. „Hundarnir eru tæki sem við notum til að hafa rökstuddan grun til leitar. Þeir eru nánast óskeikulir, við höfum aldrei orðið vör við að hundar merki fólk alveg að ástæðulausu,“ segir Páley.

Fólk á öllum aldri mætti með Herjólfi í dag. Hátíðin …
Fólk á öllum aldri mætti með Herjólfi í dag. Hátíðin er stór í ár, segir lögreglustjóri. Viðbúnaður er eftir því. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert