Það varð erlendri konu á þrítugsaldri líklega til lífs á Seyðisfirði í gær að 84 ára gamall maður sem var í golfi að kvöldi heyrði til hennar þar sem hún kallaði eftir hjálp ofan úr fjalli. Þar lá hún hjálparvana í fjallshlíðinni og undir henni rann lækjarspræna. Hún var orðin mjög köld.
„Hún hefði dáið ef ekki hefði heyrst til hennar, held ég, án þess að hægt sé að staðhæfa það,“ segir Davíð Kristinsson, Seyðfirðingur og björgunarsveitarmaður á svæðinu, í samtali við mbl.is. Hann fékk útkall klukkan 10 og eftir vel heppnaðar björgunaraðgerðir var konan send í sjúkraflugi til Reykjavíkur um eittleytið í nótt.
Austurfrétt greindi fyrst frá atvikinu.
Björgunarsveitarmenn úr björgunarsveitinni Ísólfi komust til konunnar, sem lá föst 150-200 upp í fjalli. Þar lá hún í miðri vatnsbunu og gat ekki fært sig. Björgunarsveitarmönnum tókst að leggja vatnshelda hlíf undir hana, svo hún blotnaði ekki meira. „Það var svo lélegt vinnupláss þarna uppi í hlíðinni að við gátum ekki bara fært hana. Hún var það illa farin og kvalin að við gátum ekki hreyft hana úr fjallinu fyrst,“ lýsir Davíð. Loks tókst með kaðlavinnu að koma henni niður úr fjallinu.
Það liggur ekki fyrir hvaða erindi konan átti upp í fjallið en hún var ein á ferð. Hún talaði að sögn Davíðs ensku og stundum frönsku, gæti hugsanlega verið svissnesk. Enginn vissi af henni uppi í fjallinu og erindið óljóst.
Málið hófst þannig að nefndur maður á golfvelli heyrði einhver óljós köll úr fjallinu. Hann fer inn í bæ og nær í lögreglumann á frívakt og þeir fara að hlusta betur eftir köllum. Þeir eru ekki vissir um hvort þetta sé eitthvað eða hvað þetta þá er, en vilja leita af sér grun. Björgunarsveitin er þá kölluð til og hún fer með hitamyndavélar og dróna og leita í fjallinu. Loks finna þeir hana í hlíðinni, rétt áður en fer að dimma af alvöru, sem betur fer.
Útkallið berst um tíuleytið og þeir skila konunni inn í sjúkrabíl um klukkan hálfeitt. Hún fór suður til Reykjavíkur í sjúkraflugi. Ekki er vitað um ástand hennar. „Það var enginn með henni, það voru engin ferðaplön sem lágu fyrir eða neitt. Enginn sem saknaði hennar eða var að leita að henni, sem sýnir bara mikilvægi þess að láta vita áður en farið er í svona ferðir, því þetta hefði klárlega geta orðið hennar seinasta,“ segir Davíð.
Hann lýsir því að aðkoman á vettvangi hafi verið erfið, því konan var mjög illa haldin og vinnuplássið mjög lítið og erfitt að athafna sig. Þyrla Landhelgisgæslunnar er lengi á vettvang að sögn Davíðs og því þurfti sem allra fyrst að koma henni úr fjallinu og undir læknishendur. „Þetta var öðruvísi reynsla og minnir mann bara á hve ómetanlegt það er fyrir okkur Íslendinga að eiga svona gott björgunarfólk með svona mikla sérhæfingu og þekkingu,“ segir Davíð.