Rigningarspá fyrir Fiskidaginn mikla

Útlit er fyrir votan fiskidag á Dalvík í ár.
Útlit er fyrir votan fiskidag á Dalvík í ár. Ljósmynd/Atli Rúnar

Veðurspá helgarinnar bendir eindregið til norðlægra átta og rigningar á Norðurlandi, svo sem á Dalvík þar sem Fiskidagurinn mikli verður haldinn.

Þetta kalsaveður gæti helst yfir á morgun, föstudag, og gera má ráð fyrir að það færist síðan til vesturs eftir því sem líður á helgina. Samkvæmt þessu verður væta á föstudagskvöldið á Dalvík, en til siðs er að bæjarbúar bjóði gestum og gangandi þá í fiskisúpu á heimilum sínum. Hátíðahöld, hvar fiskréttir eru á boðstólum, og stórtónleikar eru á laugardeginum.

„Við höldum áfram af bjartsýni og látum ekkert trufla okkur,“ segir Júlíus Júlísson, framkvæmdastjóri Fiskidagsins mikla, í Morgunblaðinu í dag. „Enn sem komið er höfum við aðeins spá um veðrið og vonandi rætist úr. Einu sinni fengum við dropa á fiskisúpukvöldinu sem ekki kom að sök. Hins vegar hefur aldrei rignt á Fiskideginum sjálfum sem nú verður haldinn í 19. sinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert