Svissneska konan féll fram af kletti

Ljósi bletturinn á myndinni er ljós á slysstað í fjallshlíðinni …
Ljósi bletturinn á myndinni er ljós á slysstað í fjallshlíðinni á Seyðisfirði. Konan var ein á göngu, að þræða leið niður Bjólfinn, þegar hún féll fram af kletti og valt niður hlíðina. Hún gat ekki hreyft sig og lá í vatnsstraumi. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ísólfur

Svissnesk kona, rétt rúmlega tvítug að aldri, sem var bjargað úr fjallshlíð við Seyðisfjörð í fyrrakvöld liggur enn á gjörgæslu á Landspítalanum í Reykjavík. Hún gekkst undir bakaðgerð aðfaranótt miðvikudags. Aðgerðin gekk vel og konan er á batavegi.

Þegar björgunarsveitarmenn fundu konuna í fjallshlíðinni á þriðjudagskvöld lá hún í vatnsstraumi með höfuðið að hluta í vatninu og var ófær um að hreyfa sig úr stað. Hún hafði farið fram af kletti í hlíðinni, fallið hátt og oltið svo niður hlíðina. Hún náði að kalla á hjálp og eldri maður sem var í kvöldgolfi heyrði til hennar.

Að sögn Bjarka Borgþórssonar, lögreglumanns á Seyðisfirði sem var á vettvangi, var konan sennilega að stytta sér leið niður Bjólfinn og inn á Seyðisfjörð. Hún hafði verið í fjallgöngu ein á ferð og var vel búin til slíks, „virkaði vön“. Hún var ekki í alfaraleið heldur hátt uppi í fjallinu langt utan merktra göngustíga og var að þræða sig niður eftir torfærri leið.

Fallið var hátt

„Við náðum að áætla hvaðan hún hafði fallið og það var mikið fall,“ segir Bjarki. Fyrst þurfti að leita konunnar í hlíðinni með hitamyndavélum og drónum og loks fannst hún. Klukkan 22 var kallað á björgunarsveitir og um hálfeitt var hún komin undir læknishendur. Hún var flutt með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Hún var mjög illa slösuð, nokkuð sem má meðal annars ráða af því, að hún var ófær um að lyfta höfðinu upp úr vatnsstraumnum.

Mikil mildi er að heyrst hafi til konunnar í hlíðinni, því svo afskekktur er staðurinn í fjallinu að enginn hefði átt þar leið hjá á næstunni, að sögn Bjarka.

Þess er skemmst að minnast að svissneskur ríkisborgari lést fyrir tæpum fjórum árum í fjalllendi við Seyðisfjörð, þar sem hann hafði verið einn á ferðalagi. Umferðin hefur aukist mjög á þessum slóðum en virkur gönguklúbbur leitast af þrótti við að merkja gönguleiðir um allt fjallið.

Á leiðinni niður fjallið. Þegar útkall barst var konan hátt …
Á leiðinni niður fjallið. Þegar útkall barst var konan hátt uppi í hlíðinni og gat sig hvergi hreyft. Ljósmynd/Björgunarsveitin Ísólfur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert