Þrjár milljónir í sektir fyrir daginn

Bíll ekur í nágrenni Lómagnúps við Skeiðarársand. Myndin tengist efni …
Bíll ekur í nágrenni Lómagnúps við Skeiðarársand. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. mbl.is/RAX

Lögreglan á Suðurlandi segir það því miður hætt að heyra til tíðinda að erlendir ökumenn séu stöðvaðir vegna hraðaksturs hér á landi. „Gærdagurinn hvað þetta varðar var engin undantekning hjá lögreglunni á Suðurlandi en alls voru 45 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í umdæminu í gær. Stærstur hluti þessara ökumanna voru sem fyrr segir erlendir ferðamenn,“ segir í Facebook-færslu lögreglu.

Sá sem hraðast ók var mældur á 152 km hraða á Mýrdalssandi. Sá bílstjóri hafði þá útskýringu á takteinum að hann hefði verið svo hugfanginn og snortinn af landslaginu að hann hefði hreinlega gleymt sér. Tveir aðrir ökumenn voru mældir á sviptingarhraða eða 146 og 147 km hraða.

Nær allir greiddu bílstjórarnir sektina á staðnum og þegar eingöngu er horft á þá 26 ökumenn sem kærðir voru fyrir hraðakstur á Mýrdalssandi milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs greiddu þeir samtals rúmlega 1,6 milljónir króna í sekt. Heildarsekt þeirra 45 sem kærðir voru fyrir hraðakstur í gær nemur hins vegar um þremur milljónum króna.

Fór sjö veltur

Bendir lögregla á að ekki sé lengra síðan en síðastliðinn föstudag að erlendir ferðamenn veltu jeppa á þessum vegarkafla á þjóðvegi 1 í Eldhrauni skammt vestan við Kirkjubæjarklaustur.

„Valt bifreiðin að minnsta kosti 7 veltur og endaði á hvolfi ofan í hraungjótu og flutti þyrla Landhelgisgæslunnar þá fjóra sem í bifreiðinni voru á slysadeild LSH í Fossvogi.

Ekki er vitað hvort hraðakstur hafi átt þátt í umræddu slysi sem er til rannsóknar hjá embættinu en enginn úr slysinu er í lífshættu,“ segir í færslunni.

mbl.is