Hvessir í Öræfum eftir hádegi

Hvass vindstrengur verður við Öræfajökul eftir hádegi í dag og …
Hvass vindstrengur verður við Öræfajökul eftir hádegi í dag og verða aðstæður á þessum slóðum varasamar fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. Kort/Veðurstofan

Vegagerðin varar við snörpum vindhviðum í Öræfasveit eftir hádegi. Búast má við varasömum hviðum þvert á veg, allt að 30-35 metrum á sekúndu. Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að hvassast  verði í grennd við Svínafell og Freysnes. 

Hvassviðrið mun ná hámarki í kvöld, en lagast heldur snemma í nótt. Ökumenn með aftanívagna og á ökutækjum sem eru viðkvæm fyrir vindi eru beðnir um að fara varlega.

Ákveðin norðanátt er á landinu í dag og dálítil væta norðan- og austanlands og fremur svalt, en annars yfirleitt léttskýjað og hlýtt að deginum, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Þá lægir á mánudag og birtir víða til nyrðra, en snýst síðan í austan- og suðaustanátt með rigningu sunnan heiða og hlýnar heldur fyrir norðan og austan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert