Laun ríkisforstjóra hækkað um fjórðung

Bankastjóri Landsbankans hækkaði í launum um 1,7 milljónir frá júní …
Bankastjóri Landsbankans hækkaði í launum um 1,7 milljónir frá júní 2017 til apríl 2019. mbl.is/Árni Sæberg

Laun forstjóra hjá ríkisstofnunum hafa hækkað um nánast fjórðung síðan ákvarðanir um laun þeirra voru færðar frá kjararáði til stjórna þeirra stofnana sem forstjórarnir stjórna fyrir tæpum tveimur árum. Laun forstjóra Landbankans hafa hækkað um rúmlega 1,7 milljónir síðan í júní 2017.

Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, þingmanns Viðreisnar.

Laun forstjóra ríkisstofnana hafa hækkað um rúmlega 23% að meðaltali síðan í lok júní árið 2017. Launaákvarðanir voru færðar frá kjararáði 1. júlí 2017. Kjararáð var svo lagt alveg niður um mitt síðasta ár.

Fyrirspurnina lagði Þorsteinn fram í vor og birtist svar við henni loks á vef Alþingis í gær. Spurt var hverjar heildarlaunabreytingar forstjóra fyrirtækja í eigu ríkisins væru frá því að launaákvarðanir voru færðar undan kjararáði. Þá var einnig spurt um rökstuðninginn að baki breytingum á launum forstjóranna.

Flestir forstjórar ríkisstofnana sem svöruðu fyrirspurn frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu hækkuðu í launum á tímabilinu en þó ekki allir. Sumir stóðu í stað og sumir lækkuðu í launum.

Laun forstjóra Íslandsbanka lækkaðu til að mynda um 946 þúsund krónur. Heildarlaun forstjóra bankans ásamt bifreiðahlunnindum eða bifreiðastyrk voru í apríl á þessu ári 3.865.187 krónur.

Laun forstjóra Íslandspósts hækkuðu um 685 þúsund krónur á tímabilinu og laun forstjóra Isavia um tæplega 760 þúsund.

Þorsteinn spurði einnig um launabreytingar hjá ríkisforstjórum í kjölfar bréfs sem ráðherra sendi 12. febrúar síðastliðinn til stjórna allra fyrirtækja í ríkiseigu og Bankasýslu ríkisins vegna launahækkana framkvæmdastjóra. 

Svar við þeirri fyrirspurn birtist sömuleiðis á vef Alþingis í gær og þar má sjá að laun standa að mestu í stað á tímabilinu febrúar til apríl á þessu ári með nokkrum undantekningum þó.

mbl.is