Bílarnir komust ekki úr Herjólfi

Bilun varð í dag í stýringu á hlera nýja Herjólfs …
Bilun varð í dag í stýringu á hlera nýja Herjólfs sem opnar fyrir bílana um borð í skipinu. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Bilun varð í dag í stýringu á hlera nýja Herjólfs sem opnar fyrir bílana um borð í skipinu. Skipinu var snúið við og reynt að koma bílunum út öfugum megin í höfninni í Vestmannaeyjum. Reynt var að bakka þeim út eða snúa þeim við á bíladekkinu. Vegna bilunarinnar verður gamli Herjólfur notaður í staðinn. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, kveðst ekki vita hversu langan tíma tekur að lagfæra skipið.

„Þetta er kannski hluti af því líka að á íslenskum nýjum skipum eru alltaf einhverjir hnökrar sem koma upp og menn þurfa þá að vinna sig í gegnum þá. Þá skiptir höfuðmáli að vera með annað skip til taks til þess að geta haldið þeirri áætlun sem félagið vinnur eftir, sem eru sjö ferðir á dag,” segir hann. „Við höfum alltaf einhver bjargráð og það er gott að geta gripið í gömlu ferjuna. Hún stendur fyrir sínu.”

Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Lenti tvívegis í hafnarkantinum

Fyrir tveimur til þremur vikum lenti Herjólfur svo tvívegis í hafnarkantinum í Landeyjahöfn  en tjónið var minni háttar. „Það var nokkuð stífur vindur sem tók skipið aðeins til hliðar með þeim afleiðingum að það nuddaðist utan í hafnarkantinn,” segir Guðbjartur Ellert.

Lóðshurð á síðu skipsins lenti á kantinum en núna er búið að setja gúmmídekk á hann. Að sögn Guðbjarts var verið að færa til garða og laga umhverfi innri hafnarinnar og því breyttist siglingalínan lítillega og snúningssvæðið var minna. „Svo er skipið nýtt og menn eru að átta sig á því hvernig það svari veðri og vindum.”

Hann bætir við: „Það er viðbúið að menn geti lent þarna utan í við tilteknar aðstæður en þetta er allt að koma til. Það er búið að laga innri garðana og búið að stækka þetta snúningssvæði.“ 

Uppfært kl. 22:25: Samkvæmt upplýsingum mbl.is hefur nýi Herjólfur tekið við siglingum á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja að nýju eftir að gert var við bilunina.

Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is