Fer í 30 metra í hviðum

Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun fyrir Suðausturland sem tekur gildi klukkan 11. Spáð er austan 15-20 m/s við vestanverðan Öræfajökul og vindhviðum um 30 m/s, en hægari vindi annars á spásvæðinu. Getur verið varasamt fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

„Í gær og í dag fer lægð fram hjá landinu. Lítils háttar eða dálítil úrkoma fylgir um sunnanvert landið og allhvass eða hvass vindur við fjöll þar. Gul viðvörun vegna þess er í gildi í dag. Hins vegar er gert ráð fyrir þurru og björtu veðri norðan til. Hægari austlæg átt á morgun og úrkomulítið, en stöku skúrir í flestum landshlutum. Hiti frá 10 stigum norðaustanlands upp í 18 stig á Vesturlandi, að deginum.
Fleiri haustlegir dagar í nánd, en þó áfram útlit fyrir svipað hitastig,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Suðaustlæg átt, víða 8-13 m/s og allt að 13-18 í vindstrengjum við fjöll sunnanlands. Skýjað og dálítil úrkoma um sunnanvert landið, en styttir upp suðvestan til síðdegis. Þurrt og bjart fyrir norðan. Fremur hæg austlæg átt á morgun og skúrir í flestum landshlutum, en áfram lítils háttar úrkoma austanlands. Hiti 10 til 18 stig að deginum, hlýjast á Vesturlandi.

Á fimmtudag:

Austan 5-10 m/s og dálítil ringing austan til á landinu en hægari og bjartviðri um landið vestanvert. Hiti 8 til 17 stig að deginum, hlýjast vestanlands. 

Á föstudag:
Austan og suðaustan 3-8 m/s. Að mestu skýjað og víða lítils háttar rigning, en þurrt á Norðurlandi. Hiti 9 til 14 stig. 

Á laugardag:
Fremur hæg suðlæg eða austlæg átt og stöku skúrir, einkum síðdegis. Hiti breytist lítið. 

Á sunnudag:
Sunnan og suðaustan 5-13 m/s, en allt að 13-18 suðvestan til. Rigning í öllum landshlutum, fyrst suðvestanlands. Hiti 8 til 15 stig. 

Á mánudag:
Suðvestanátt og rigning eða talsverð rigning um landið sunnan- og vestanvert en þurrt og bjartara yfir norðaustan til. Hiti breytist lítið. 

Á þriðjudag:
Útlit fyrir hæga suðlæga átt, en austlæga átt norðvestan til. Einhver úrkoma í flestum landshlutum, þó síst austan til. Kólnar lítillega.

mbl.is