Hvetur Breta til EES-aðildar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, leggur til að Bretland gangi …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, leggur til að Bretland gangi í EES tímabundið til þess að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar Brexit. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég efast ekki um að Bretlandi mun farna vel eftir útgöngu úr Evrópusambandinu, hvort sem það er með samningi eða ekki,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og leggur til að Bretland gangi tímabundið í EES í aðsendri grein sem birt hefur verið á vef Spectator í Bretlandi.

„Ég segi þetta sem fyrrverandi forsætisráðherra lands, Íslands, sem gekk úr ESB án þess að hafa gengið í það,“ segir formaðurinn og fullyrðir að velgengni Íslands hefði ekki orðið að veruleika ef landið hefði látið verða af ESB-aðildinni.

Þá telur Sigmundur Breta geta lært af reynslu Íslendinga og fundið leið til þess að forðast erfiðleika við útgöngu Breta þann 31. október. Þá rekur hann forsögu aðildarumsóknar Íslands og segir það vissulega svo að Ísland taki upp reglugerðir í gegnum EES en að þrýstingur til þess af hálfu ESB hafi aukist í kjölfar þess að Ísland sótti um aðild.

„Kosningarnar 2013 […] urðu til þess að hlé yrði gert á aðildarferlinu og 2015 afturkallaði ríkisstjórn mín formlega aðildarumsóknina. Ég var búinn að komast að þeirri niðurstöðu að afturköllun umsóknarinnar var mikilvægur þáttur í því að fara í nauðsynlegar aðgerðir sem myndu tryggja endurreisn hagkerfisins,“ skrifar Sigmundur.

Ganga í EES

Telur Sigmundur að hugsanlega geta orðið nokkrar neikvæðar afleiðingar fyrir Breta af Brexit til skamms tíma. Leggur hann til að Bretland gangi í EES tímabundið til þess að forðast fyrrnefndra neikvæðra afleiðinga.

„Þannig mun Bretland geta verið utan ESB við lok október og á sama tíma haldið í frjáls viðskipti við ESB,“ skrifar formaðurinn og bendir á að Bretlandi yrði þá frjálst að gera sjálfstæða viðskiptasamninga. „Jafnframt mun ekki vera sett upp landamæraeftirlit á Írlandi.“

Fram kemur í skrifum forsætisráðherrans fyrrverandi að EES-aðildin mun einnig hafa í för með sér að Bretar fái fulla stjórn á sjávarútvegsmálum og landbúnaðarmálum. Þá gefur hann lítið fyrir áhyggjum af samdrætti í útflutningi landbúnaðarafurða frá Bretlandi. „Ef litið er til íbúafjölda Bretlands samanborið við stærð landbúnaðarins, munu áhrif samdráttar í útflutningi vera takmarkast af aukinni markaðshlutdeild innlendra framleiðenda.“

Slæm auglýsing

Þá telur Sigmundur ESB til þess fallið að sætta sig við þessa lausn hans á Brexit-málinu þar sem verið sé að nota umgjörð sem sambandið sjálft myndaði „til þess að fá ófús ríki til þess að aðlagast ESB.“

„ESB stendur nú frammi fyrir lýðræðislegri ákvörðun aðildarríkis um útgöngu. Ef markmið sambandsins reynist vera að refsa borgara þess ríkis sem stefnir á útgöngu fyrir ákvörðun þeirra [..], er það varla góð auglýsing fyrir aðild að ESB.“

„Látið ESB gera sitt versta. Bretland mun gera sitt besta og er ég sannfærður um að það muni duga,“ segir Sigmundur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert