Eins og að fara í ræktina

Formlegt frímúrarastarf hefur verið stundað á Íslandi í 100 ár. …
Formlegt frímúrarastarf hefur verið stundað á Íslandi í 100 ár. Valur Valsson gekk í Regluna þrítugur að aldri árið 1974. Kristinn Magnússon

Valur Valsson, fyrrum bankastjóri, hefur stýrt Frímúrarareglunni á Íslandi síðustu 12 árin. Hann er stórmeistari þessa félags sem löngum hefur verið sveipað mikilli dulúð enda hvílir leynd yfir því hvað fram fer á vettvangi þess. Í dag eiga um 3.600 karlmenn aðild að Frímúrarareglunni og segir Valur að áhuginn á starfinu sé mikill og hafi verið allt frá upphafi.

Í viðtali í sunnudagsblaði Morgunblaðsins ræðir hann um markmið starfsins. Segir hann Regluna vinna að mannrækt og að henni megi að mörgu leyti líkja við líkamsrækt.

Frímúrarareglan býður landsmenn velkomna í heimsókn í tilefni Menningarnætur í …
Frímúrarareglan býður landsmenn velkomna í heimsókn í tilefni Menningarnætur í dag milli 14:00 og 17:00. Kristinn Magnússon

„Menn tala stundum um það hér að þeir séu að koma í ræktina þegar í hús er komið. Og það má til sanns vegar færa. Starfið hér hefur mannrækt að markmiði og líkt og með líkamsræktina þá þarf að iðka hana til þess að ná árangri.“

Leyndin á sér eðlilegar skýringar

Valur segir að starfið á vettvangi Frímúrarareglunnar hafi gefið sér mikið en hann gekk í Regluna þrítugur að aldri árið 1974. Hann viðurkennir að frímúrarar hafi ekki alltaf náð að skýra nægilega vel hvert markmið starfsins er og að það hafi alið af sér tortryggni. Leyndin sem yfir starfinu hvílir eigi sér hins vegar eðlilegar skýringar.

„Frímúrarastarfið fer fram á svokölluðum stigum. Í okkar reglu eru ellefu stig. Allir geta, ef þeim endist líf og aldur til, tekið tíu stig. Síðasta stigið taka svo aðeins æðstu embættismenn Reglunnar. Fyrir flesta getur það tekið 15-20 ár að taka þessi tíu stig. Það skiptir höfuðmáli að menn viti ekki hvað gerist á næsta stigi. Það á að koma þeim á óvart í þeim skilningi að þeir séu frjálsir af því að upplifa það á eigin forsendum. Það má líkja þessu við það að maður lesi bók og einhver segi honum frá því hvað gerist í næsta kafla. Þá er búiðað eyðileggja ánægjuna af lestri bókarinnar.“

Valur Valsson er stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi og er tíundi …
Valur Valsson er stórmeistari Frímúrarareglunnar á Íslandi og er tíundi maðurinn til að gegna embættinu. Fyrsti stórmeistari Reglunnar var Sveinn Björnsson forseti Íslands. Kristinn Magnússon

Opna húsakynnin í dag

Í ár fagnar Frímúrarareglan því að 100 ár eru liðin frá því að formlegt frímúrarastarf hófst hér á landi. Það á sér þó eldri rætur, bæði í íslensku samfélagi og ekki síður í Evrópu þar sem það er talið hafa verið stundað í margar aldir. En í tilefni tímamótanna hefur Frímúrarareglan ákveðið að opna regluheimili sitt í Reykjavík fyrir gestum og gangandi í dag, Menningarnótt, milli 14:00 og 17:00 en það er staðsett við Bríetartún 3-5, skáhalt fyrir aftan lögreglustöðina við Hverfisgötu.

Frímúrarareglan er með höfuðstöðvar sínar við Bríetartún 3-5 í Reykjavík.
Frímúrarareglan er með höfuðstöðvar sínar við Bríetartún 3-5 í Reykjavík. Haraldur Jónasson/Hari
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert