Flogaveikri konu úthýst af veitingastað

Unnur Hrefna Jóhannsdóttir er flogaveik og fær eitt til þrjú …
Unnur Hrefna Jóhannsdóttir er flogaveik og fær eitt til þrjú flog á dag. Ljósmynd/Aðsend

Unnur Hrefna Jóhannsdóttir sem er flogaveik lenti í þeirri óskemmtilegu reynslu á dögunum að vera meinað að snæða á veitingastað vegna veikinda sinna. Hún fékk flog á staðnum og lenti í kjölfarið í mjög óþægilegu viðmóti starfsmanna.

„Þetta er auðvitað mikið áfall, sérstaklega þar sem þetta er uppáhalds kínverski veitingastaðurinn minn,“ segir Unnur í samtali við mbl.is. Hún segir þetta sorglegt dæmi um fáfræði og fordóma. 

Unnur lenti í því að fá flog á Kínahofinu nýverið en þar fær hún sér gjarnan að borða. Starfsfólk og gestir brugðust hratt við og hringt var í sjúkrabíl. Nokkrum dögum síðar leggur Unnur leið sína aftur á Kínahofið þar sem hún mætir óþægilegu viðmóti.

Þá kemur starfsmaður á móti Unni og vísar henni á dyr undir því yfirskyni að von sé á stórum hópi klukkan sjö. Þá var klukkan hálf sex og Unnur sagðist vel geta klárað að borða fyrir þann tíma. „En allt kom fyrir ekki. Út skyldi ég“, segir Unnur í Facebook færslu um málið. 

Talin óæskilegur viðskiptavinur

„Nokkrum dögum seinna hringdi ég til öryggis og var sagt að það væri opið allan daginn en þegar ég kom á staðinn um fjögur leytið hafði kokkurinn skroppið frá og enginn vissi hvenær von væri á honum aftur. Um klukkutíma síðar hringi ég og spyr hvort kokkurinn sé kominn en var þá sagt, svo það sé dregið saman, að mín væri ekki óskað framar sem viðskiptavini á Kínahofinu“, segir Unnur enn fremur í Facebook færslu sinni. 

„Ég fór og ræddi við starfsmenn og var þá útskýrt fyrir mér að ég væri ekki æskilegur viðskiptavinur lengur því svona uppákomur gætu fælt frá viðskiptavinina og kosta eigendur peninga. Ég átti ekki orð. En til að bíta höfuðið af skömminni var mér sagt að ég mætti koma klukkan þrjú á daginn en ekki klukkan fimm og ekki klukkan sjö. Flogaveikum er sem sagt meinað að borða á Kínahofinu. Sorglegt dæmi um fáfræði og fordóma.“

Aldrei lent í öðru eins

Í samtali við mbl.is segir Unnur að hún hafi lent í fordómum vegna veikinda sinna áður, en þá hafi hún fengið flog eftir að fá sér bjórglas. Í kjölfarið hafi þjónn ekki viljað afgreiða henni meiri bjór þrátt fyrri að tengslin á milli bjórdrykkjunnar og flogsins væru engin. 

„En ég hef aldrei lent í svona ýktum viðbrögðum. Yfirleitt er fólk bara hjálpsamt og ég gæti ekki lifað eðlilegu lífi nema vegna þess. Ég er venjulega með aðstoðarmann en verð stundum að geta farið eitthvað ein og nýti mér þá ferðaþjónustu fatlaðra. Í þessi tvö skipti sem þau meinuðu mér aðgangi að staðnum var ég bara strandaglópur því ég var ekki með far heim strax.“

Ekki náðist í eigendur Kínahofsins vegna málsins. Hér má lesa færslu Unnar í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert