Íslendingar vinna einna styst

Verkamenn að störfum við Sæbraut í Reykjavík. Íslendingar vinna einna …
Verkamenn að störfum við Sæbraut í Reykjavík. Íslendingar vinna einna styst af ríkjum OECD. mbl.is/Golli

Starfsfólk á íslenskum vinnumarkaði vinnur einna styst að því er fram kemur í tölum OECD fyrir árið 2018 sem Samtök atvinnulífsins vekja athygli á á vef sínum. Í tölunum kemur fram að ársvinnutími á Íslandi hafi verið sá sjötti stysti, eða um 1.469 stundir að meðaltali. Stystur var hann í Þýskalandi, 1.363 stundir, og þar á eftir komu Danmörk og Noregur með um 1.400 stundir. Meðaltal OECD-ríkjanna var 1.734 stundir.

„Ársvinnutíminn á Íslandi hefur styst mikið undanfarinn áratug án íhlutunar löggjafarvaldsins eða breytinga á vinnutímaákvæðum kjarasamninga. Stærsta skýringin er að dregið hefur úr yfirvinnu,“ segir á vef SA.

1.486 vinnustundir á ári að meðaltali

„Árið 2008 var meðalársvinnutími á Íslandi 1.486 stundir og um 120 stundum lengri en að meðaltali annars staðar á Norðurlöndunum. Milli áranna 2008 og 2018 styttist ársvinnutíminn á Íslandi um 140 stundir en mun minna í hinum löndunum. Árið 2018 var meðalársvinnutími á Íslandi svipaður og að meðaltali á Norðurlöndunum, 50-80 stundum lengri en í Noregi og Danmörku en svipaður og í Svíþjóð en tæpum 90 stundum styttri en í Finnlandi,“ segir á vef SA.

Fram kemur að upplýsingar OECD eigi að endurspegla raunverulega unnar vinnustundir starfsmanna og því skuli greiddir tímar í orlofi, á sérstökum frídögum, í veikindum, fæðingarorlofi o.s.frv. ekki talin með.

Hjúkrunarfræðingur að störfum á Landspítalanum í Reykjavík.
Hjúkrunarfræðingur að störfum á Landspítalanum í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Fram kemur að OECD hafi nýverið endurskoðað íslensku vinnutímatölurnar til hækkunar. „Sem dæmi má nefna að árið 2016 áætlaði OECD að meðalársvinnutími á Íslandi hefði verið 1.864 stundir árið 2016 en nú áætlar stofnunin að ársvinnutíminn hafi verið 1.503 stundir það ár,“ segir á vef SA. Munurinn sé rúmlega 361 stund eða sem samsvari níu vinnuvikum.

Endurskoði áform um styttri vinnutíma

Upplýsingarnar setja SA í samhengi við lagafrumvörp sem lögð hafa verið fram á undanförnum árum um íhlutun í vinnutímaákvæði kjarasamninga til að stytta vinnuvikuna um fimm stundir. „Meginröksemd fyrir íhlutuninni hefur verið sú að vinnutími sé óhóflega langur á Íslandi miðað við aðrar þjóðir með tilvísun í tölur OECD.

Nýjar tölur OECD um einn stysta meðalársvinnutíma sem um getur sýna að staða Íslands er ekki eins slæm og rakið er í greinargerð frumvarpsins sem ætti að gefa flutningsmönnum tilefni til að endurskoða þessi lagasetningaráform,“ segja SA.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Hari

Í frétt samtakanna er einnig fjallað um framleiðniaukningu á Íslandi frá 2000-2015, en fram kemur að aukningin hafi verið 2,7% að jafnaði á ári hér á landi, samanborið við 1,2% að meðaltali í ESB-ríkjunum.

Þá kemur fram að framleiðni á Íslandi, mæld sem kaupmáttarleiðrétt landsframleiðsla á unna vinnustund, var vel yfir meðaltali OECD-ríkjanna árið 2017. Framleiðnin svo skilgreind var 65 kaupmáttarleiðréttir bandaríkjadalir á Íslandi samanborið við 55 dali að meðaltali í OECD-ríkjunum.

mbl.is