Sagði Framsókn til í „hvað sem er“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skaut fast á sinn gamla …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, skaut fast á sinn gamla flokk, Framsóknarflokkinn, í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Við vissum hvað lagt var upp með þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Það lá ljóst fyrir að þetta væri ríkisstjórn mynduð um stóla en ekki stefnu,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Alþingi í kvöld. Hann skaust föstum skotum á ríkisstjórnina, sér í lagi sinn gamla flokk; Framsóknarflokkinn.

Sigmundur gagnrýndi áherslur ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Hann sagði að um væri að ræða stórt og mikilvægt mál en að þeir sem töluðu mest um það nálguðust það á kolrangan hátt.

Sigmundur sagði að alþjóðaveðurfræðistofnunin hefði nýverið varað við ofstæki í loftslagsmálum. 

Þarf að beita vísindum og skynsemi

Til að takast á við stór úrlausnarefni eins og ógnir í umhverfismálum þurfum við að beita vísindum og skynsemi, en ekki notast við sýndarpólitík og moka ofan í skurði,“ sagði Sigmundur og bætti við að það gæfi ekki góða raun að finna upp sífellt fleiri refsiskatta.

Sigmundur sagði að um leið og skaðlegum aðgerðum væri beitt í nafni umhverfisverndar væri sótt að íslenskum landbúnaði úr öllum áttum. Að hans mati er ein besta leiðin til að takast á við umhverfisvá sú að efla innlenda umhverfisvæna matvælaframleiðslu. Þess í stað sé henni gert erfitt fyrir og opnað á innflutning á sýklalyfjamenguðum matvælum úr erlendum verksmiðjubúum.

Sigmundur sagði að sósíalískar áherslur svifu yfir vötnunum. „Áðan tilkynnti forsætisráðherra að meira að segja vindurinn ætti að vera í ríkisins eigu. Ég hygg að engum stjórnvöldum nokkurs staðar hafi dottið slíkt í hug í seinni tíma sögu. Uppbyggingarverkefni meirihlutans virðast svo helst birtast í steinsteypukössum hér í 101 Reykjavík. Byggja á stóran kassa við Stjórnarráðið, miklu stærri kassa hér á alþingisreitnum og risastórum kössum verður bætt utan á gamla Landspítalann við Hringbraut,“ sagði Sigmundur.

Ríkisstjórn um stóla, ekki stefnu

Sigmundur vék talinu aftur að ríkisstjórninni sem hann ítrekaði að væri ekki mynduð um stefnu heldur stóla. 

Áhrifaleysi minnsta flokksins í þessari ríkisstjórn kemur engum á óvart enda flokkurinn löngu búinn að sýna að hann sé til í hvað sem er bara fyrir að fá að vera með,“ sagði Sigmundur. Hans gamli flokkur, Framsóknarflokkurinn, mældist minnstur ríkisstjórnarflokkanna í könnun sem gerð var nýverið.

Það hefur hins vegar komið mér meira á óvart að sjá hvað Sjálfstæðisflokkurinn lætur yfir sig ganga af hálfu leiðandi flokksins í ríkisstjórninni,“ sagði Sigmundur. Hann sagði að einn ráðherra hefði verið pólitískur en Vinstri-grænum hefði tekist að koma þeim ráðherra úr ríkisstjórninni. Hann hélt áfram og gagnrýndi ráðherra VG; umhverfis-, heilbrigðis- og forsætisráðherra.

Sigmundur sagði að það þyrfti aukna skynsemishyggju í íslensk stjórnmál og Miðflokkurinn muni kynna megináherslur sínar við upphaf þings. „Ólíkt því sem ríkisstjórnin kynnir okkur nú í kvöld verða það raunhæfar lausnir byggðar á staðreyndum.“

mbl.is