HR meðal 350 bestu háskóla í heiminum á lista THE

Háskóli Reykjavíkur er meðal 350 bestu háskóla í heiminum á …
Háskóli Reykjavíkur er meðal 350 bestu háskóla í heiminum á lista Times Higher Education og efstur íslenskra háskóla. mbl.is/Árni Sæberg

„Á nýjum lista Times Higher Education (THE) yfir bestu háskóla heims, sem birtur var í gær, kemur fram að á mælikvarða sem metur áhrif rannsókna skorar Háskólinn í Reykjavík hæst ásamt sex öðrum háskólum. Áhrifin eru metin út frá hlutfallslegum fjölda tilvitnana í vísindagreinar, það er, hversu oft aðrir vísindamenn vitna í niðurstöður fræðimanna háskólans í ritrýndum vísindagreinum.“ Þetta kemur fram í tilkynningu. 

HR er meðal bestu 350 háskóla í heiminum á listanum og efstur íslenskra háskóla. Í sumar var greint frá því að á lista THE yfir bestu ungu háskóla í heimi, 50 ára og yngri, væri HR í 52. sæti og á lista yfir smærri háskóla, með færri en 5.000 nemendur, væri HR í 14. sæti í heiminum. Segir ennfremur í tilkynningu. 

„Að HR sé meðal áhrifamestu rannsóknaháskóla heims samkvæmt hinum þekkta lista Times Higher Education er stórkostlegt. Það sýnir skýrt hversu frábærlega hefur tekist að byggja upp öflugar alþjóðlegar rannsóknir við háskólann á tiltölulega skömmum tíma. Það sýnir líka að sú rannsóknavinna sem fer fram við HR er nýtt um allan heim sem undirstaða frekari rannsókna og þróunar.“ Þetta segir Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, í tilkynningu.  

Listi THE yfir tilvitnanir byggist á upplýsingum frá Elsevier um rúmlega 77 milljónir tilvitnanir í 13 milljón ritrýndar fræðigreinar, yfirlitsgreinar, bækur, bókakafla og ráðstefnurit, sem gefin hafa verið út síðustu fimm árin. Í einkunnagjöf THE fyrir tilvitnanir er jafnframt tekið tillit til fjölda starfsmanna við háskóla, mismunar á útgáfutíðni milli fræðigreina og fleiri slíkra atriða. Listinn yfir bestu háskólana byggist m.a. á mati á kennslu, rannsóknum, tilvitnunum, alþjóðastarfi og samstarfi við atvinnulífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert