Í skrúðgöngu eftir Miklubraut

Strætó mun reka lestina í skrúðgöngu eftir Miklubraut. Akandi umferð …
Strætó mun reka lestina í skrúðgöngu eftir Miklubraut. Akandi umferð verður beint um hjáleið á meðan. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við ætlum að ríða á vaðið og gera þetta almennilega,“ segir Björn H. Sveinsson, formaður Samtaka um bíllausan lífsstíl, um bíllausa daginn sem haldinn verður hátíðlegur næstkomandi sunnudag, 22. september.

Bíllausi dagurinn markar endapunkt Evrópsku samgönguvikunnar og hingað til hafa sveitarfélögin og umhverfis- og auðlindaráðið staðið að deginum, svo sem með því að bjóða frítt í Strætó. Á því verður engin breyting þetta árið, en auk þess verður í fyrsta sinn sérstök dagskrá í tilefni dagsins.

Rafvagnar frá Strætó reka lestina

„Við ætlum að byrja bíllausa daginn á bíllausu göngunni þar sem við hittumst kl. 12.30 á horni Klambratúns við gatnamót Miklubrautar og Lönguhlíðar, þar sem hjólaviðgerðastandurinn er,“ útskýrir Björn.

„Þar söfnumst við saman og kl. 13 leggjum við af stað niður Miklubraut með sem fjölbreyttustum ferðamáta, gangandi, á hjólum, hjólabrettum og með Strætó, en það verða tveir rafvagnar frá Strætó sem reka lestina. Sævar Helgi Bragason og Þórhildur Fjóla Stefánsdóttir verða fánaberar og leiða gönguna um Miklubraut, Hringbraut og að Lækjartorgi.“

Björn veit ekki til þess að áður hafi verið farin ganga eftir Miklubraut og Hringbraut, en akandi umferð verður beint um hjáleiðir á meðan. „Það er líka bara hægt að keyra á eftir okkur,“ segir Björn.

Lækjargata undirlögð öðru en umferð

Dagskránni er hvergi nærri lokið þegar komið er á Lækjartorg, en Lækjargata verður lokuð frá kl. 10 til 17 og verður þar dagskrá á vegum Bíllausa dagsins. Þar mun stofnandi samtakanna Walk21, Jim Walker, flytja ávarp og opna viðburðinn. „Hann er mikill aktívisti og talar fyrir gönguvænni borgum um allan heim. Hann var síðast í Bogotá í Kólumbíu að tala fyrir 2 milljónir manns á bíllausum degi. Við setjum markið ekki alveg svo hátt,“ segir Björn en vonast þó til að sjá sem flesta.

Saga Garðarsdóttir verður kynnir á viðburðinum, en þar munu meðal annars þau Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður samgöngu- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, ræða umhverfisvæna ferðamáta.

Að ávörpum loknum mun Logi Pedro taka lagið, auk þess sem ýmis afþreying verður í boði á Lækjargötu, sem venjulega er tileinkuð bílaumferð. Þar nefnir Björn meðal annars Sirkus Íslands, Húlladúlluna og sýningu frá BMX Brós.

Aðspurður segir Björn að honum sýnist að rætast eigi úr veðurspánni fyrir helgina. „Það er rigning í kortunum en það á að vera hlýtt og lygnt, en kannski smá skúrir af og til sem er bara frábært íslenskt haustveður fyrir útivist.“

„Það er fólk sem hjólar allan ársins hring eða notar strætó og klæðir sig eftir veðri. Við ætlum svolítið að steyta hnefann út í rigningu og neikvæðar raddir og ætlum bara samt að halda skrúðgöngu,“ segir Björn að lokum.

Nánar má kynna sér dagskrá bíllausa dagsins á viðburðinum á Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert