Reyndu að ljúga til nafns

mbl.is/Eggert

Ökumaður og farþegi bíls sem lögreglan hafði afskipti af í miðborginni laust eftir miðnætti reyndu báðir að ljúga til nafns. Ökumaðurinn er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum.  Farþeginn er grunaður um brot á vopnalögum.

Á sjöunda tímanum í gærkvöldi barst lögreglu tilkynning um umferðarslys í Tryggvagötu þar sem hjólreiðamaður hjólaði aftan á bifreið sem hafði stöðvað. Sjúkrabíll var kallaður til þar sem hjólreiðamaðurinn hafði fengið höfuðhögg.  Meiðsl hans eru að öðru leyti ekki kunn. Einhverjar skemmdir urðu á bifreið og hjóli.

Um miðnætti var tilkynnt um innbrot í samkomuhús í Mosfellsbæ. Innbrotsþjófar höfðu brotið rúðu og grunur leikur á að áfengi hafi verið stolið.

Þá hafði lögregla afskipti af fimm ökumönnum í gærkvöldi og nótt sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

mbl.is