Fyrsti mygluleitarhundurinn tekur til starfa

Jóhanna Þorgbjörg Magnúsdóttir og hundurinn Hanz sem komst villulaust í …
Jóhanna Þorgbjörg Magnúsdóttir og hundurinn Hanz sem komst villulaust í gegnum mygluleitarpróf. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsti mygluleitarhundurinn á Íslandi tekur til starfa í vikunni. Hundaþjálfarinn Jóhanna Þorbjörg Magnúsdóttir þreytti próf með schaef­fer­hund­inn Hanz á vegum þýskra mygluleitarsamtaka nýverið og hlaut hann fyrstu einkunn því hann komst villulaust í gegnum prófið. Þetta er samstarfsverkefni Mannvits verkfræðistofu og Allirhundar, fyrirtækis Jóhönnu, að finna myglu í húsnæði. Biðlistarnir eru þegar orðnir langir. 

„Þetta var mjög flott hjá honum. Hann er rosalega vinnuglaður og sannur. Mér líður frekar eins og forritara en hundaþjálfara. Hanz er með svo gott minni ef hann finnur lykt einu sinni þekkir hann hana strax aftur þrátt fyrir að hafa ekki fundið hana í nokkurn tíma,“ segir Jóhanna.

Þjálfunin tók um eitt og hálft ár og er ferlið langt og strangt. „Þjálfunin og leitin sjálf að myglu er flókin efnafræði. Það eru margar tegundir og undirtegundir og maður þarf alltaf að fara aftur í grunninn til að fylgja honum eftir,“ segir Jóhanna. Hanz er þjálfaður til að finna algengustu og hættulegustu mygluna.   

Kemur úr rótgróinni ræktun her- og lögregluhunda

Hanz er fluttur inn frá Svíþjóð og kemur úr rótgróinni ræktun her- og lögregluhunda. Hanz er hins vegar fyrsti mygluleitarhundurinn úr þessari ræktun. Óháður prófdómari á vegum mygluleitarsamtakanna kom til landsins og lagði umrætt próf fyrir Hanz. Umhverfisstofnun Þýskalands kom að stofnun mygluleitarsamtakanna sem eru regnhlífasamtök í þessu fagi.


Bylting í að finna leynda myglu 

Fyrst um sinn verða loftgæðasérfræðingar og verkfræðingar frá Mannvit með í för þegar Þorbjörg og Hanz fara í mygluleit. „Þetta er bylting í að finna leynda myglu í húsnæði. Við höfum alls konar tæki og tól til að mæla raka og myglu en við höfum ekki stefnuna. Hann gefur okkur stefnuna sem engin tæki geta gert,“ segir Jóhanna. 

Verkefnin eru að raðast inn á listann og útlit fyrir að þau verða út um allar trissur á næstunni. Þjálfun Hanz í leit að myglu lýkur aldrei þrátt fyrir að hann hafi náð prófinu með glæsibrag og fengið tilheyrandi vottun. Hann þarf að vera bæði andlega og líkamlega tilbúinn að takast á við verkefnin. 

Jóhönnu þykir bæði gaman að vinna með hundum og láta gott af sér leiða. Hún var um árabil í björgunarsveit, starfaði sem sjúkraflutningamaður og var í lögreglunni á Suðurlandi. „Mér finnst þetta vera angi af því að reyna að hjálpa fólki og finnst þetta mjög skemmtilegt verkefni. Ætli þetta sé ekki nýr angi af útkallshvötinni,” segir hún og hlær dillandi hlátri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert