Tap vegna netglæpa 1,6 milljarðar síðasta árið

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, greindi frá …
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, greindi frá því á ráðstefnu um netöryggi í morgun að hér á landi hefðu yfir 1,6 milljarðar króna tapast vegna netglæpa síðustu 12 mánuði. mbl.is/Eggert

Síðastliðna tólf mánuði hafa yfir 1,6 milljarðar króna tapast hér á landi vegna tölvuglæpa, samkvæmt því sem fram kom í erindi Karls Steinars Valssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, á ráðstefnunni Netógnir í nýjum heimi sem fram fer í Hörpu í dag.

„Þetta eru miklir peningar en við teljum að þeir séu enn þá meiri. Það eru líka einstaklingar sem eru að tapa miklum upphæðum í þessu, einstaklingar sem eru kannski bara á leiðinni í frí og halda að þeir séu búnir að panta sér íbúðir einhvers staðar. Milljón sem fer frá einstaklingi – það er mikið högg að átta sig á því að fjármunirnir eru allir farnir,“ sagði Karl Steinar.

Skjáskot af glæru Karls Steinars

Hann segir að færri brot gegn fyrirtækjum séu tilkynnt til lögreglu hér á landi en í Evrópu almennt og að hér væri í raun skortur á tilkynningum og kærum vegna þessara mála.

„Ég held að það stafi af því að fyrirtækin eru treg til að tilkynna, vegna þess að þetta eru mikil vonbrigði og þeim finnst að þau hafi brugðist sem fyrirtæki við það [að verða fyrir glæpnum] og séu því treg til að tilkynna það,“ sagði Karl Steinar.

Fylgjast má með ráðstefnunni í beinni útsendingu hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert