Ættum að geta verið í fremstu röð en erum það ekki

Ráðstefnan er á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en október er …
Ráðstefnan er á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en október er helgaður netöryggismálum í mörgum löndum Evrópu og tekur ráðuneytið nú í fyrsta sinn þátt í átakinu. mbl.is/Hari

„Við erum í fremstu röð ríkja varðandi fjarskipainnviði og ég tel að í okkar fámenna samfélagi ættum við að geta verið í fremstu röð í netöryggismálum. Þar erum við hins vegar ekki í dag, en við stefnum þangað,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra er hann setti ráðstefnu um netöryggi sem ber yfirskriftina Netógnir í nýjum heimi í Hörpu í morgun.

Ráðstefnan er á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, en október er helgaður netöryggismálum í mörgum löndum Evrópu og tekur ráðuneytið tekur nú í fyrsta sinn þátt í átakinu. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi málaflokksins og hvetja til þess að viðburðir á sviði netöryggismála verði haldnir í mánuðinum.

Ný stefna og aðgerðaráætlun um netöryggismál var samþykkt á Alþingi í vor sem hluti af fjarskiptaáætlun til næstu fimmtán ára. Einnig voru samþykkt í vor lög um net- og upplýsingaöryggi mikilvægra innviða, til að mynda í fjarskiptum, fjármálamarkaði, flutningum, heilbrigðisþjónustu og orkuiðnaði. 

Sigurður Ingi sagði að netöryggismálin væru tiltölulega nýtt viðfangsefni stjórnsýslunnar og að eins og allir viðstaddir vissu væru netöryggismál „ekki átaksverkefni með upphaf og endi“ heldur væri verið að byggja upp kerfi og skipulag sem þyrftu sífellt að vera til taks.

Ráðherra bað fólk um að ímynda sér stóra netárás sem myndi beinast gegn orkukerfi eða fjármálakerfi landsins og þuldi síðan upp alla þá fjölmörgu opinberu aðila sem myndu þurfa að vinna sama til þess að takast á við afleiðingar hennar.

Hann sagði að traust þyrfti að ríkja á milli aðila sem hafa skilgreint hlutverk á þessu sviði og að mikilvægt væri að nota tímann sem væri til stefnu fram að gilditöku laga um net- og upplýsingaöryggi mikilvægra innviða til þess að undirbúa gildistöku þeirra eins og kostur er.

Fylgjast má með ráðstefnunni í beinni útsendingu hér að neðan:

  • 9:00    Ávarp  Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
  • 9:10    Nýir tímar - ný umgjörð Sigríður Rafnar Pétursdóttir, lögfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
  • 9:30    Netbrot, nálgun og sýn lögreglu Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
  • 9:50    Samhæfing í netöryggismálum – hlutverk PFS Unnur Sveinbjarnardóttir, lögfræðingur hjá Póst- og fjarskiptastofnun
  • 10:10    Kaffi
  • 10:25    IPv6: Keyrum þetta af stað Tryggvi Farestveit, forstöðumaður hýsingarlausna hjá Opnum kerfum
  • 10:45    Tæknilegt líf ungra barna – byggjum traustan grunn Hildur Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og SAFT
  • 11:05    Straumurinn og upplýsingaöryggi á Stafrænu Íslandi Vigfús Gíslason, tækniarkitekt og sérfræðingur hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu
  • 11:25    4. iðnbyltingin: Öld tækifæra – ef öryggið er í öndvegi  Sigurður Emil Pálsson, formaður Netöryggisráðs, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu
mbl.is