Föstur gætu tengst banvænum sjúkdómum

Sitt sýnist hverjum um föstur.
Sitt sýnist hverjum um föstur. Ljósmynd/Colourbox

Það að borða aðeins í átta klukkustundir á dag en fasta síðan það sem eftir er dagsins gæti tengst aukinni hættu á dauðsföllum af völdum hjartaáfalla og heilablóðfalla, að sögn vísindamanna.

Stjörnur á borð við Jennifer Aniston, Hugh Jackman, Kourtney Kardashian og Scarlett Johansson hafa allar talað vel um föstur sem þessar.

Vísindamenn hafa tengt fösturnar við betri niðurstöður til skamms tíma þegar kemur að blóðþrýstingi, blóðsykri og kólesteróli.

Takmarkaðar upplýsingar um matarvenjur

Niðurstöður til langs tíma hafa aftur á móti núna verið kannaðar í einni af fyrstu rannsóknum þess efnis, að því er The Times greindi frá.

Eftir að hafa fylgst með um 20 þúsund fullorðnum einstaklingum í Bandaríkjunum kom í ljós að þeir sem sögðust borða innan átta klukkustunda glugga voru næstum því tvisvar sinnum líklegri til að deyja af völdum hjartaáfalla eða heilablóðfalla, samanborið við þá sem sögðust dreifa máltíðum sínum og millimálum á 12 til 16 klukkustundir.

Vísindamennirnir sem gerðu rannsóknina lögðu áherslu á að taka skuli niðurstöðunum með fyrirvara, þar sem rannsókn sem þessi gæti ekki sannað orsök og afleiðingu. Einnig sögðust þeir hafa takmarkaðar upplýsingar um matarvenjur þátttakendanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka