Fundu veikleika í erfðamengi þarmabólgusjúklinga

Vísindamenn segja að til séu lyf sem gætu nýst við …
Vísindamenn segja að til séu lyf sem gætu nýst við meðferð IBD-sjúkdóma. Ljósmynd/Colourbox

Búið er að finna veikleika í erfðamengi 95% þeirra sem glíma við þarmabólgusjúkdóma, eða IBD.

Veikleikinn er sagður stuðla að ofvirkni ónæmisfrumna í meltingarveginum sem leiða til bólgu.

Breska ríkisútvarpið greinir frá. 

Telja að lyf þegar sé til

Vísindamenn í Bretlandi fundu veikleikann og telja að þegar séu til lyf sem gætu spornað gegn sjúkdómnum. Nú er verið að prufukeyra lyfjagjöfina og stefnan sett á að prófa lyfin á mönnum.

Bólgusjúkdómar í meltingarvegi gera að jafnaði vart við sig á táningsárum sjúklingsins eða um tvítugt.

BBC greinir frá sögu hinnar 27 ára Lauren Golighty sem kveðst fyrst hafa fundið fyrir einkennum bólgusjúkdóms þegar hún var 16 ára. Það byrjaði á magaverkjum og blóði í hægðum. 

Hún taldi drykkju skýra einkennin og velti þeim lítið fyrir sér. Það var ekki fyrr en að hún fór í botnlangatöku að það uppgötvaðist að hún glímdi við Chrons-sjúkdóm. Í dag notast hún við stómapoka.

Lausnin ekki komin í höfn 

Talið er að stórætufrumur í meltingarvegi framleiði efnablönduna cytokines, sem leiðir til mikillar bólgu. 

Vísindamenn hjá Francis Crick stofnuninni við Háskólann í Lundúnum uppgötvuðu hluta erfðarmengisins sem segir til um bólguframleiðslu stórætufrumna. Þannig fæðast sumir með þann galla í hluta mengisins að framleiðslan fer umfram eðlileg mörk. 

Í viðtali við BBC segir James Lee, einn vísindamannanna, að ekki sé einungis búið að komast að því hvernig starfsemin fer úrskeiðis heldur einnig hvers vegna, sem býður upp á ný tækifæri til að glíma bólgusjúkdóma.

Vísindamenn þurfa þó að komast að því hvernig sé hægt að einangra notkun ákveðinna lyfja til þess að ráðast á stórætufrumurnar án þess að það valdi skaða að öðru leyti.

Enn er talsvert í land áður en að meðferðin yrði tekin til almennra notkunar og stefnt er að því að hefja meðferðartilraunir á næstu fimm árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert