Stjörnuskipið horfið eftir vel heppnað flug

Geimfarið er það tók á loft fyrr í dag.
Geimfarið er það tók á loft fyrr í dag. AFP/Brandon Bell

Starship, kröftugasta geimflaug jarðar, flaug lengra og hraðar en nokkru sinni fyrr í þriðja tilraunaflugi sínu í dag en hvarf þegar hún flaug í gegnum lofthjúp jarðar yfir Indlandshafi þar sem hún átti að lenda.

Fyrirtækið greindi frá þessu. Síðustu tvö tilraunaflugin hafa endað með sprengingum en sú varð ekki raunin í þetta sinn. 

Flugtak Starship frá bækistöðvum SpaceX í bandaríska ríkinu Texas gekk vel og tók geimflaugin á loft laust fyrir klukkan hálftvö í dag.

„Hópurinn hefur sagt að skipið hafi týnst þannig að það verður engin skvetta í dag,” sagði Dan Huot, upplýsingafulltrúi SpaceX, að því er CNN greindi frá. 

„En aftur, það er magnað að sjá hversu langt við komumst í þetta sinn.”

Geimfarið tekur á loft.
Geimfarið tekur á loft. AFP/Brandon Bell

Starship er mikilvægur hluti af áætlun Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA, um að senda geimfara á tunglið síðar á þessum áratug. Einnig hyggur Elon Musk, forstjóri SpaceX, á opnun nýlendu á plánetunni Mars í framtíðinni. 

Beðið eftir flugtakinu í Brownsville í Texas.
Beðið eftir flugtakinu í Brownsville í Texas. AFP/Brandon Bell
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka