Stöðumat lykill að framförum

Í hraða samfélagsins og vaxandi skjánotkun þurfa börnin tíma, þau …
Í hraða samfélagsins og vaxandi skjánotkun þurfa börnin tíma, þau þurfa markvisst utanumhald og þau þurfa fólk með sér sem hjálpar til við að efla félagsfærni sem og að tryggja góða grunnfærni og líðan, skrifa greinarhöfundar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margt má betur fara í íslensku skólakerfi og gríðarlega mikilvægt að fara í aðgerðir ekki seinna en strax, skrifa Hermundur Sigmundsson og Svava Hjaltalín. Þau segja að til þess þurfi að taka höndum saman, fylgja fremstu vísindum og hugsanlega hægja aðeins á, breyta skipulagi skóladagsins og efla þjálfun:

Skóladagarnir eru langir og þeir hafa lengst síðustu áratugina. Grunnskólinn lengdist um eitt ár, úr 9 árum í 10, þegar ákveðið var að 6 ára skyldu börn setjast á skólabekk, Tímafjöldi hefur einnig aukist á þessum árum svo það má segja að þar hafi líka bæst við eitt ár í viðbót. Börn eru því að jafnaði tveimur árum lengur í grunnskóla en greinarhöfundar voru.

Það er fleira sem hefur breyst á þessum árum en atvinnuþátttaka kvenna hefur stóraukist og því ekki óalgengt að eftir að hefðbundnum skóladegi ljúki dvelji börn í skólavistun. Dagurinn er því langur og krefjandi fyrir yngstu börnin.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskóla Íslands og Norska Tækni- …
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskóla Íslands og Norska Tækni- og vísindaháskólann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Annar greinarhöfundur var í barnaskólanum á Hvanneyri árin 1971 til 1977 og síðan bættust við 3 ár í gagnfræðaskóla. Skólinn byrjaði um 8:15 og lauk um 12:30 hvern dag. Eftir skóla var ánægja að koma heim og geta leikið við systkini og vini. Það gafst nægur tími fyrir heimaverkefni og tækifæri til að fá stuðning frá foreldrum. Áreitin voru minni.

Krakkarnir í næsta húsi voru duglegir að lesa og áttu mikið af bókum og fékk viðkomandi alltaf góðar ábendingar um skemmtilegar bækur sem gaman væri að lesa. Bækur Indriða Úlfssonar fyrrverandi skólastjóra voru þar í miklu uppáhaldi sem og Ævintýrabækurnar, sem voru spennandi.

Áskoranir: Í dag er öldin önnur og landslagið gjörbreytt. Það er meiri asi á öllu og aðstæður barna oft flóknar og krefjandi. Skólinn er stofnun sem hefur fylgt eftir hraða samfélagsins og gleymt að staldra reglulega við og spyrja sig hvort hafi verið gengið til góðs. Og þegar alþjóðlegar kannanir hafa sýnt okkur að svo sé ekki þá hefur okkur ekki tekist að sýna djörfung og þor og ráðast í breytingar til að bæta stöðuna.

Krafa til skóla um alls slags kennslu hefur stóraukist og markvisst nám þar sem hver einstaklingur fær markvissa þjálfun og áskoranir miðað við færni jafnvel farið halloka. Kennarar þurfa að hlaupa hraðar og hraðar og fá oft og tíðum ekki tækifæri til að setjast niður og spá í spilin og stokka upp leiðir og markmið börnunum til hagsbóta. Grunnskólinn nær ekki að aðstoða þau börn sem ekki fá aðstoð heima sem sýnir sig í tölum sem liggja fyrir. Því verðum við að breyta.

 39% gátu ekki lesið texta og skilið hann eftir 2. bekk í Reykjavík (2019).

 48% gátu ekki lesið og skilið texta eftir 2. bekk í 20 skólum víðsvegar um landið (2023).

 40% gátu ekki lesið sér til gagns eftir 10 ár í grunnskóla (PISA 2022), 47% drengja og 32% stúlkna.

Að auki eru tölur frá bæjarfélagi á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem sýna fram á að 40% þriggja ára barna eru í áhættuhópi að því er viðkemur málþróun og orðaforða. Það eitt og sér er verulegt áhyggjuefni og tilefni til að rannsaka af alvöru og grípa inn í með markvissum aðgerðum. Íslenskan á undir högg að sækja.

Svava Hjaltalín er læsisfræðingur og verkefnastjóri Rannsóknasetursins Menntun og hugarfar …
Svava Hjaltalín er læsisfræðingur og verkefnastjóri Rannsóknasetursins Menntun og hugarfar við HÍ.

Það vantar klárlega upp á mælingar á stöðu og árangri í leik- og grunnskólum. Á meðan engin eru gögnin til að byggja á þá er ekki von á góðu.

Til að ná að fylgja lykilþáttum hvað nám og færniþróun varðar, áskorun miðað við færni, markvissri þjálfun og eftirfylgni, verður stöðumat að liggja fyrir því öðruvísi er ekki hægt að skipuleggja markvisst nám einstaklings.

Í raun er þetta háalvarlegt og í raun merkilegt að íslenskt skólakerfi búi svo illa en um 200 milljarða kostar kerfið á ári og árlega fara um 12 milljarðar í sérkennslu.

Fyrir það verður skólinn að ná betri árangri.

Markviss þjálfun og eftirfylgni

Vísindi: K.A. Ericsson (1947-2020), hinn framúrskarandi sænski fræðimaður, kom með sína kenningu árið 1993: Markviss þjálfun og eftirfylgni (e. deliberate practice).

Lykillinn er að hver einstaklingur verður að fá markvissa þjálfun og þar er stöðumat mjög mikilvægt. Það segir til um hvar viðkomandi einstaklingur stendur í þeirri færni eða í þeirri þekkingu sem hann á að búa yfir.

Greinarhöfundar hafa leitast við að fá upplýsingar í ýmsum bæjarfélögum um hve margir nemendur geta lesið og skilið texta (teljast læsir) eftir 2. bekk, en fátt hefur verið um svör.

Þessar upplýsingar liggja ekki fyrir. Þá má spyrja hver eftirfylgnin í raun sé, hvernig er grunnurinn sem er gríðarlega mikilvægur og hvernig er markvisst byggt ofan á hann.

Rannsóknir í Noregi sýna að 30% foreldra barna í grunnskólanum eru ekki að styðja börnin og 38% foreldra treysta sér ekki til að aðstoða þau í 8., 9. og 10. bekk.

Ekki er ólíklegt að svipaðar tölur eigi við hér á landi og ekki úr vegi að áætla þær nær 40% miðað við þær tölur sem við höfum um börn og unglinga sem eiga á einhvern hátt erfitt uppdráttar.

Aðgerðir mega ekki bíða

Möguleikar: Í okkar verkefni í Vestmannaeyjum, Kveikjum neistann, er kenning Ericsson ein af lykilkenningum og því hafa verið þróuð mælitæki fyrir eftirfarandi grunnþætti:

 Grunnfærni í lestri. Bókstafs-hljóða-prófið fyrir 1. bekk. LÆS-2 fyrir 2. bekk. LÆS-3 fyrir 3. bekk og matsrammi fyrir skapandi skrif verður tilbúinn frá 4. bekk (2 vísindagreinar eru birtar og 2 sendar inn).

 Grunnfærni í stærðfræði. Vörður (einfalt stöðumat) eru tilbúnar fyrir 1., 2. og 3. bekk (vísindagrein í vinnslu).

 Grunnfærni í náttúrufræði. Vörður eru tilbúnar fyrir 1., 2., og 3. bekk.

 Líðan og upplifuð kunnátta (e. perceived competence) stöðumat fyrir 1. til 10. bekk (vísindagrein birt).

 Líðan (n. trivsel) og öryggi (n. trygghet) fyrir 1. til 3. bekk (gagnasöfnun í vor). Samanburður við 2.000 norsk börn á sama aldri.

Nálgunin á skólastarf yngstu barnanna er heildstæð og með hugmyndafræði beinnar kennslu mætti tryggja grunnfærni barna og þannig spara samfélaginu stórar fjárhæðir í sérkennslu og tap af mannauði. 10% sparnaður væri um 1,2 milljarðar króna.

Það er gríðarlega mikilvægt að fara í aðgerðir ekki seinna en strax, börnin mega ekki líða fyrir annað. Til þess þarf að taka höndum saman, fylgja fremstu vísindum og hugsanlega hægja aðeins á, breyta skipulagi skóladagsins og efla þjálfun.

Grunnskólinn er skylda og þess vegna frábært jöfnunartæki. Í hraða samfélagsins og vaxandi skjánotkun þurfa börnin tíma, þau þurfa markvisst utanumhald og þau þurfa fólk með sér sem hjálpar til við að efla félagsfærni sem og að tryggja góða grunnfærni og líðan.

Hermundur er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann og Svava er læsisfræðingur, kennari og verkefnastjóri Rannsóknaseturs um menntun og hugarfar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka