Nokkur heilræði fyrir lífslukku

Kristmundur Magnússon hefur mikla ánægju af að tálga. Hann er …
Kristmundur Magnússon hefur mikla ánægju af að tálga. Hann er orðinn 85 ára og heldur sínu striki. Ljósmynd/Snorri Magnússon

Með markvissum hætti má vinna gegn einmannaleika og auka vellíðan. Hermundur Sigmundsson og Svava Hjaltalín fjalla hér um þá þætti, sem geta ýtt undir aukna vellíðan fólks á öllum aldri.

Þættirnir félagsfærni, einmanaleiki, ástríða, hreyfing og tengsl við náttúru eru allt lykilþættir fyrir vellíðan. Einnig hafa rannsóknir undirritaðs prófessors og félaga sýnt fram á mikilvægi hreyfingar (motion), félagslegrar virkni (relation) og ástríðu (passion) fyrir gráa og hvíta efni heilans (grunnstarfsemi heilans).

Áskoranir Það sýnir sig að fleiri jafnt eldri sem yngri einstaklingar verða einmana. Áður var talað um að einmanaleiki færi vaxandi hjá þeim sem eldri eru en nú sýna rannsóknir að það á meira við um yngra fólk. Ástæður telja fræðimenn vera að stöðugt fleiri nota snjallsíma og snjalltæki sem dregur úr félagslegri virkni.

Fleiri bæði yngri og eldri einstaklingar hreyfa sig minna. Fólk finnur ekki sína ástríðu og tilgang í lífinu og er jafnvel ekki hvatt til þess. Fólk flytur til stærri bæja og tengsl þess við náttúruna minnka stöðugt. Grænum svæðum innan bæja fækkar en þétting byggðar, bílastæði og nýjar byggingar þykja þeim fremri.

Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- …
Hermundur Sigmundsson er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað segja vísindin okkur?

Félagsleg tengsl Félagsleg tengsl fara dvínandi í okkar samfélagi. Íslenskir unglingar skora lægst af OECD-ríkjum Evrópu í félagsfærni (UNICEF, 2020). Félagsfærni er gífurlega mikilvægur þáttur fyrir grunnstarfsemi heilans, andlega heilsu og vellíðan. Gleði var lykilþáttur í vellíðan og góðri heilsu í Harvard-rannsókninni sem hófst 1938. Félagsfærni er lykilþáttur fyrir grunnstarfsemi heilans, andlega heilsu og vellíðan.

Ástríða Það að hafa ástríðu og sinna henni eykur bæði árangur og vellíðan. Það sem einkennir þá einstaklinga sem eru eða hafa orðið framúrskarandi í einhverjum þáttum er ástríða (e. The key to success). Ástríða er mikilvæg fyrir grunnstarfsemi heilans; flæði, andlega heilsu og vellíðan. Ástríða og áhrif hennar fylgja okkur ævina á enda, meiri ástríða því eldri sem við erum því meiri vellíðan.

Hreyfing Hreyfing er mjög mikilvæg fyrir gráa og hvíta efni heilans, andlega heilsu og vellíðan. Rannsóknir sýna meðal annars mikilvægi hreyfingar úti í náttúrunni en hún minnkar streituhormóna meira en æfing innandyra.

Náttúra Að vera úti í náttúrunni er mikilvægt fyrir vellíðan og minnkar meðal annars streituhormóna eins og segir hér að ofan. Einnig sýna rannsóknir að mun meiri áhrif eru á okkar vellíðan ef við erum eða hreyfum okkur úti í náttúrunni í samanburði við veru eða hreyfingu í bæjarumhverfi.

Möguleikar Vinnum að því að efla þessa þætti sem rannsóknir sýna að séu svo mikilvægir yrir vellíðan.

Félagsleg virkni Verum virk félagslega. Hittum fjölskyldu, vini, kunningja og gefum okkur tíma. Hringjum í vini og sýnum þeim að við hugsum um þá. Gefum af okkur!

Svava Hjaltalín er læsisfræðingur, kennari og verkefnastjóri Rannsóknaseturs um menntun …
Svava Hjaltalín er læsisfræðingur, kennari og verkefnastjóri Rannsóknaseturs um menntun og hugarfar.

Einmanaleiki Rannsóknir sýna að einmanaleiki hefur mikil áhrif á vellíðan. Þess vegna er gífurlega mikilvægt að minnka einmanaleika. Við ættum öll að veita því athygli hvort í kringum okkur eru aðilar sem gætu verið einmana, gefum okkur að þeim. Heimsækjum reglulega fullorðið fólk sem fer minna eins og ömmur og afa. Það þarf ekki að vera löng heimsókn en að kíkja inn er mikilvægt. Veitum því einnig athygli hvort einhver af okkar yngra fólki er einmana, hringjum, förum í heimsókn, á kaffihús, í sundlaugar, bíó, bókasafnið eða íþróttaleiki saman. Förum eftir ráðum UNESCO (2023) og höfum ekki snjallsíma í skólum og takmörkum notkun á snjalltækjum nema að sýnt sé fram á það með vísindum (vísindagreinum í alþjóðlegum tímaritum) að snjalltæki sýni betri árangur en sú aðferð sem var notuð án þeirra.

Ástríða Finnum ástríðu okkar og þróum hana. Mikilvægt er að halda áfram að vinna með þætti sem tengjast ástríðu þegar við verðum eldri. Gott dæmi um þetta er hann Gotti (Kristmundur Magnússon) sem byrjaði að tálga við 60 ára aldur og nú 85 ára tálgar hann 2-3 í viku 2 tíma í senn hvert listaverkið á fætur öðru sem veitir honum ómælda gleði. Eða Arne sem hætti á skautum 16 ára en byrjaði aftur 67 ára. Hann er nú 89 ára 12-faldur heimsmeistari ‘old-boys’ og æfir 1 1/2 til 2 tíma á dag 6 daga vikunnar. Hann elskar að vera á skautum eins og Gotti elskar að tálga.

Hreyfing Stundum hreyfingu helst daglega. Börn og unglingar 1 tíma á dag og eldri alla vega 150 mín. á viku sem samsvarar 21 mín. á dag.

Náttúra Reynum að koma okkur út daglega og þá sem mest í tengsl við náttúruna. Annar greinarhöfundur sagði við mömmu sína, Stellu, 81 árs, sem býr í Sjálandi við sjóinn: „Reyndu að fara í göngutúr á hverjum degi helst þannig að þú sjáir sjóinn, Bessastaði og Snæfellsjökul. Ef ekki göngutúr þá að fara í laugina, helst synda nokkrar ferðir og fara í gufu og heita potta. Í heitu pottunum og gufunni á maður oft góð samtöl við fólk á öllum aldri.“

Fólk þarf jákvæða hvatningu. Eflum bæði eigin vellíðan og annarra! Þannig njótum við best lífsins. Hvern ætlar þú að heimsækja, eða í hvern ætlar þú að hringja í dag?

Hermundur er prófessor við Háskóla Íslands og Norska tækni- og vísindaháskólann og Svava er læsisfræðingur, kennari og verkefnastjóri Rannsóknaseturs um menntun og hugarfar.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert