Framsóknarkonur hvetja Færeyinga til dáða

Frá landsþingi LFK í Borgarnesi í gær.
Frá landsþingi LFK í Borgarnesi í gær. Ljósmynd/Aðsend

Landsþing landssambands framsóknarkvenna fór fram í Borgarnesi í gær, en þetta var 19. landsþing sambandsins. Þingið ávörpuðu bæði formaður og varaformaður Framsóknarflokksins, þau Sigurður Ingi Jóhannsson og Lilja D. Alfreðsdóttir.

Fjöldi ályktana var samþykktur á þinginu í gær, en í málefnavinnunni var áhersla lögð á stöðu kvenna í nútímasamfélagi. Framsóknarkonur samþykktu meðal annars ályktun þar sem almenningur og stjórnmálaflokkar í Færeyjum eru hvattir til að gera stórátak í jafnréttismálum, en í nýafstöðnum þingkosningum á eyjunum varð bakslag í hlut kvenna á Lögþinginu og eru konur nú einungis 24% þingmanna.

„Í nýrri landsstjórn minnkaði hlutur kvenna úr fjórum kvenráðherrum niður í einn. Konur eru helmingur mannkyns og eiga valdahlutföll kynjanna í sveitarstjórnum, á þingi og í ríkisstjórn hvers ríkis að endurspegla þá staðreynd. Þessi staða sýnir að hvergi má slaka á í jafnréttisbaráttunni,“ segir í ályktun landsþingsins um þetta efni, en allar ályktanir þingsins má lesa hér að neðan.

Linda Hrönn endurkjörin formaður

Linda Hrönn Þórisdóttir var endurkjörin formaður LFK.
Linda Hrönn Þórisdóttir var endurkjörin formaður LFK. Ljósmynd/Aðsend

Linda Hrönn Þórisdóttir var endurkjörin sem formaður landssambandsins í gær. Linda er 45 ára og starfar sem verkefnastjóri hjá Barnaheillum – Save the Children á Íslandi og stundakennari á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Hún er með B.Ed-próf í leikskólakennarafræðum og MA-próf í uppeldis- og menntunarfræðum. Linda er gift Þórði Inga Scheving Bjarnasyni og saman eiga þau fjögur börn.

Einnig var kosin ný framkvæmdastjórn og landsstjórn LFK á fundinum í gær og eru þær svo skipaðar:

Í framkvæmdastjórn eru, auk Lindu:

Hjördís Guðný Guðmundsdóttir

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir

Ólöf Pálína Úlfarsdóttir

Þorbjörg Sólbjartsdóttir

og til vara:

Ella Þóra Jónsdóttir

Sæbjörg Erlings

Í landsstjórn voru kjörnar:

Guðveig Eyglóardóttir fyrir NV

Kristbjörg Þórisdóttir fyrir SV

Fanný Gunnarsdóttir fyrir RN

Rakel Dögg Óskarsdóttir fyrir RS

Sigurlaug Þóra Gunnarsdóttir fyrir NA

Inga Jara Jónsdóttir fyrir SU

og til vara:

Þórey Anna Matthíasdóttir fyrir SV                                        

Ingveldur Sæmundsdóttir fyrir RN

Ragnheiður Ingimundardóttir fyrir NV

Drífa Sigfúsdóttir, SU

Kristjana Louise Friðbjarnardóttir fyrir NA

Gerður Hauksdóttir fyrir RS

Ályktanir á landsþingi LFK 12. október 2019


Hvatning til Færeyinga

19. landsþing landssambands framsóknarkvenna (LFK) sem haldið er í Borgarnesi 12. október 2019, hvetur almenning og stjórnmálaflokka í Færeyjum að gera stórátak í jafnréttismálum. Í nýafstöðnum þingkosningum í Færeyjum varð bakslag í hlut kvenna á Lögþinginu, þar fækkaði þeim og eru konur nú 24% þingmanna en karlar 76%. Í nýrri landsstjórn minnkaði hlutur kvenna úr fjórum kvenráðherrum niður í einn. Konur eru helmingur mannkyns og eiga valdahlutföll kynjanna í sveitarstjórnum, á þingi og í ríkisstjórn hvers ríkis að endurspegla þá staðreynd. Þessi staða sýnir að hvergi má slaka á í jafnréttisbaráttunni.

Landsþing landssambands Framsóknarkvenna (LFK) sem haldið er í Borgarnesi 12. október 2019, telur mikilvægt að öllum vinnustöðum og stofnunum verði gert skylt að móta sér fjölskyldustefnu og stuðla þannig að fjölskylduvænu starfsumhverfi. Í því samhengi telur LFK tímabært að endurskoða og skilgreina Alþingi sem fjölskylduvænan vinnustað. Markmið þess er að Alþingi, æðsta stofnun íslensks samfélags, sé öðrum vinnustöðum til fyrirmyndar þegar kemur að fjölskylduvænu starfsumhverfi. LFK leggur til að Alþingi móti sér sérstaka fjölskyldustefnu. Í því ljósi telur LFK mikilvægt að skoða möguleikann á að breyta dagskipulagi þingsins og lengd vinnudagsins auk þess sem dagskrá og þau mál sem tekin eru fyrir séu ákveðin með lengri fyrirvara, þingmönnum og öðrum starfsmönnum þingsins til framdráttar. Alþingi ætti, að mati LFK, að vera leiðandi sem fyrirmyndar­vinnu­staður sem í senn er eftirsóknarverður og veitir sveigjanleika í að samræma þingstörf og fjölskyldulíf. Jafnvægi þar á milli er mikilvægt til að auka þátttöku kvenna í stjórnmálum til lengri tíma en nú er raunin. 

Landsþing landssambands framsóknarkvenna (LFK), sem haldið er í Borgarnesi 12. október 2019, hvetur  til að allir vinnustaðir, óháð fjölda starfsfólks, setji sér skýra verkferla og aðgerðir varðandi hvers kyns ofbeldi. Þeir verkferlar ættu að vera skilvirkir og gegnsæir. Þar ætti Alþingi að ganga fram með góðu fordæmi.

Landsþing landssambands framsóknarkvenna (LFK), sem haldið er í Borgarnesi 12. október 2019, lýsir áhyggjum sínum yfir því að konur eru í miklum meirihluta þeirra sem hafa dottið út af vinnumarkaði af heilsufarslegum ástæðum. Samkvæmt upplýsingum frá Virk — starfsendurhæfingu eru tveir þriðju þjónustuþega Virk konur. Mikilvægt er að gera ítarlega greiningu á orsökum þess og þá hvort fyrirfinnist ákveðnir þættir í íslensku samfélagi eða á vinnumarkaði sem hafa mikil og neikvæð áhrif á heilsufar kvenna.

Landsþing landssambands framsóknarkvenna (LFK), sem haldið er í Borgarnesi 12. október 2019, telur brýnt að sveitarfélög landsins finni lausnir sem geri öllum íbúum og gestum auðveldara um vik að flokka lífrænan sem og annan úrgang frá heimilum og draga þannig úr úrgangi til urðunar. Mikilvægt er að einfalda og samræma flokkun sorps á landsvísu. Flokkun er mikilvæg í tengslum við endurvinnslu, endurnýtingu og dregur jafnframt úr sóun.

Landsþing landssambands framsóknarkvenna (LFK), sem haldið er í Borgarnesi 12. október 2019, lýsir yfir ánægju sinni með nýsamþykktan samgöngusáttmála sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, hafði frumkvæði að og kom til leiðar. Um er  að ræða tímamótasáttmála þar sem ráðherra leiddi saman stjórnendur allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í þessu risastóra hagsmunamáli sem samgöngur eru. Ráðherra sýndi mikla framsækni og samvinnu við þessa vinnu sem er í samræmi við grunngildi Framsóknarflokksins.

Landsþing landssambands framsóknarkvenna (LFK), sem haldið er í Borgarnesi 12. október 2019, lýsir yfir ánægju sinni með þær áherslur sem mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, hefur boðað varðandi menntamál. Ráðherra hefur lýst því yfir að kennarar séu mikilvægasta starfsstéttin í samfélaginu. Mikilvægt er að efla vægi verklegra námsgreina í grunnskólum til að koma betur til móts við ólíkan hóp nemenda sem búa yfir mismunandi styrkleikum, áhuga og færni. Með því að mæta áhugasviði allra nemenda í grunnskóla gæti brottfall úr framhaldsskóla minnkað þar sem nemendur fá að efla sína hæfni og öðlast fyrr innsýn í hin ýmsu störf og menntun. 

Landsþing landssambands framsóknarkvenna (LFK), sem haldið er í Borgarnesi 12. október 2019, fagnar þeim aðgerðum sem félags- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, hefur boðað í málefnum barna og ungmenna. Áhersla ráðherra er á aukna fræðslu, forvarnir, og úrræði sem sporna við vanda varðandi ofbeldi, vanrækslu, vanlíðan, fíknivanda og fleiri þátta. Þessir þættir geta haft afdrifaríkar afleiðingar á líðan og gengi barna og ungmenna og  geta fylgt þeim ævina á enda. Samhliða því er mikilvægt, að bjóða upp á sértækar aðgerðir fyrir þau börn og ungmenni sem nú þegar eru í vanda auk þess sem taka þarf sérstaklega á fíknivanda ungmenna. Það skal gera með þeim hætti að bjóða upp á viðeigandi meðferðir og beita markvissum forvarnaaðgerðum og aðstoða þau við að ná fótfestu á ný. 

Landsþing landssambands framsóknarkvenna (LFK), sem haldið er í Borgarnesi 12. október 2019, fagnar því að umræða um jafnréttismál og stöðu kvenna sérstaklega sé haldið á lofti í þingsal og í samfélaginu öllu. LFK vill í því sambandi hvetja ráðherra jafnréttismála, Katrínu Jakobsdóttur, til að setja af stað starfshóp sem falið yrði að rýna í þær rannsóknir sem dregnar eru saman í bók bresku blaðakonunnar Caroline Criado Perez. Bók Perez, INVISIBLE WOMEN, EXPOSING DATA IN A WORLD DESIGNED FOR MEN, dregur fram í dagsljósið fjölda rannsókna úr okkar daglega lífi. Gögnin sýna að konur búa ekki við sama veruleika og karlar. Mikilvægt er að Ísland, sem þekkt er fyrir jafnrétti og sterka stöðu kvenna gangi á undan með góðu fordæmi.Tryggja þarf að stjórnsýsla, ríki og sveitarfélög verði  meðvituð um þennan vanda og  geri úrbætur hér á landi og nýti rödd sína á alþjóðavettvangi.

Landsþing landssambands framsóknarkvenna (LFK), sem haldið er í Borgarnesi 12. október 2019, fagnar frumkvæði Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem hvetur heilbrigðiskerfið til að leggja aukna áherslu á rannsóknir og meðferð við vefjagigt. Vefjagigt getur dregið verulega úr lífsgæðum og hrjáir fólk á öllum aldri en er þó algengust hjá konum á miðjum aldri. Mikilvægt er að stuðla að fræðslu um sjúkdóminn og er vefjagigt­ar­grein­ing  tal­in hluti af ástæðu ör­orku hjá stórum hluta kvenna. Örorka hefur aukist mikið á liðnum árum, sérstaklega meðal kvenna. Með auknum rannsóknum  á vefjagigt er hægt að greina einstaklinga fyrr og veita viðeigandi meðferð í von um aukin lífsgæði og að þeir verði virkir áfram eða á ný í samfélaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert