Íslendingur stal bíl og slasaði lögreglumenn

Danska lögreglan.
Danska lögreglan. Vefur lögreglunnar

Íslenskur karlmaður, búsettur í Abenraa-umdæminu á Jótlandi í Danmörku, hefur verið dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa stofnað lífi sex lögreglumanna í hættu og fyrir að valda hættu í umferðinni 4. júlí í sumar.

Dómurinn yfir manninum var kveðinn upp við héraðsdóminn í Sønderborg á suðurhluta Jótlands í gær. Atvikið sem maðurinn var dæmdur fyrir varð með þeim hætti að hann reyndi að komast undan lögreglu á stolnum bíl, við flóttann skemmdust nokkrir lögreglubílar og ljóst þótti að hann stefndi lífi fólks í hættu. Í frétt danska ríkisútvarpsins, DR, segir að lögregla hafi reynt að stöðva för mannsins en þegar hurðin á bílnum sem hann var í var opnuð hafi hann ekið af stað.

Tveir lögreglumenn, sem voru við bílinn, drógust 10-15 metra með honum og slösuðust talsvert.

Maðurinn ók síðan í gegnum Sønderborg, ók á tvo lögreglubíla og missti síðan stjórnina á bílnnum. Þar náðist hann og var handtekinn, auk farþega sem í bílnum var. Auk áðurnefndar fangelsisvistar verður manninum vísað úr landi.

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á Suður-Jótlandi segir að ákæruatriðin gegn manninum hafi alls verið 37 talsins. Auk afbrotsins 4. júlí hafi hann verið ákærður fyrir þjófnað, nytjastuld, vítavert aksturslag og akstur undir áhrifum fíkniefna auk umferðarlagabrota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert