Kjarasamningur BÍ og Birtings undirritaður

Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands.
Hjálmar Jónsson formaður Blaðamannafélags Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Blaðamannafélag Íslands og útgáfufélagið Birtingur hafa undirritað nýjan kjarasamning með fyrirvara um samþykki samninganefndar BÍ og félagsmanna BÍ á Birtingi. Samningaviðræðurnar tóku viku.

Útgáfufélagið Birtingur gefur út tímaritin Gestgjafann, Vikuna og Hús og Hýbýli og dagblaðið Mannlíf.

Fram kemur í tilkynningu frá BÍ að samningurinn gildi í þrjú ár, til 1. Nóvember 2022. Hann feli í sér gildistöku nýrrar launatöflu, grunnkaupshækkanir, hækkun á endurgreiddum kostnaði, endurskoðun á vaktaálagi og gildistöku á samningi um framsal á höfundarrétti, auk fleiri smærri atriða. 

Kynning og atkvæðagreiðsla um samninginn fer fram í hádeginu á morgun, en frestur til að tilkynna um afgreiðslu kjarasamningsins er til klukkan 17.00 á morgun.

BÍ segir viðræður standa yfir við aðra smærri miðla og að vonir standi til að þær skili niðurstöðu fljótlega.

Samningafundur  hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara á morgun klukkan 10.30 með Blaðamannafélaginu og þeim miðlum sem kosið hafa að standa innan Samtaka atvinnulífsins og hafa afhent þeim samningsumboð. Þar er um að ræða Sýn, Torg og Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins og mbl.is, auk þess sem hluti starfsmanna RÚV er í Blaðamannafélaginu.

Í tilkynningunni, sem undirrituð er af Hjálmari Jónssyni, formanni félagsins, segir að SA hafi boðið minni kjarabætur en samist hefur um við aðra á árinu.  Atkvæðagreiðsla um vinnustöðvanir blaðamanna á þessum miðlum fer fram á miðvikudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert